Veglegur jeppi og vandaður

Ford Edge er svipmikill og stæðilegur að sjá, með sterku …
Ford Edge er svipmikill og stæðilegur að sjá, með sterku framgrilli sem gerir hann auðþekkjanlegan. Þó er ekki laust við þá tilfinningu að enn eigi eftir að móta svip þessa veglega jeppa enn frekar, þrátt fyrir að hann sé að flestu leyti flottur að sjá. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Ekkert lát er á nýjum valkostum á bílamarkaðnum þegar kemur að hvers konar jeppaútfærslum, allt frá smæstu jepplingum til voldugustu risajeppa. Allt sem ber auðkennið „crossover“ rennur ljúft ofan í bílakaupendur þessi dægrin og framleiðendur hafa brugðist við með myndarskap.

Ford lætur sitt ekki eftir liggja og teflir fram Ford Edge, sem hefur talsverða burði til að láta að sér kveða í samkeppninni. Þessi jeppi er býsna veglegur, vel útilátinn hvað búnað varðar og silkimjúkur í akstri.

Sparilegur að innan

Edge er hinn álitlegasti að innan, með ríkulegum staðalbúnaði og snertiskjá sem virkar fantavel. Efnisvalið kom líka skemmtilega á óvart, lítið um plast en þess meira leður. Nýjalyktin var fyrir bragðið fyrirtak innanstokks (því meiri gerviefni, þeim mun lakari nýjalykt) og bíllinn sem prófaður var reyndist vel til þess bær að meta nýjalyktina því honum hafði verið ekið innan við 50 kílómetra. Auðvelt reyndist að stilla sætið svo vel færi um ökumann og viðmótið allt virkaði mjög vel; það er eitt að setja veglegan snertiskjá í bíl og annað að gera viðmótið þar að baki notendavænt. Ford Edge stóðst það próf með sóma og enga stund tók að átta sig á kerfinu.

Plássið að innan í Ford Edge er einkar ríflegt, bæði fyrir ökumann sem og farþega. Þá er skemmtilega auðvelt að halla sætisbökum farþega í aftursæti, sem er ljómandi kostur. Sömu sögu er að segja um farangursrýmið, sem telur ríflega 600 lítra og rúmar fyrir bragðið flest það sem manni dettur á annað borð í hug að ferja um í jeppa.

Fágun í framgangsmáta

Rétt eins og stærðin á Ford Edge er kostur hvað varðar innanrýmið fylgir sá böggull skammrifi að jeppinn er svolítill hlemmur. Hann vegur tæplega tvö tonn og helsti kosturinn varðandi aksturseiginleika er að Edge er silkimjúkur að keyra en hann verður ekki sakaður um óþarfa spretthörku. Hann getur gefið þokkalega í en ekkert meira en það. Hann er heldur ekki smíðaður fyrir spyrnuakstur né heldur keyptur með slíkt í huga en það hefði verið gaman að fá svolítið urr í vélina og svolítið fleiri hesta undir húddið til að draga þennan veglega vagn. Dagskipunin hér gengur hins vegar út á fágun og hana hefur Ford Edge til að bera í ríkulegum mæli. Eldsneytiseyðslu tókst með herkjum að halda nokkurn veginn í sex lítrum rúmlegum og telst það allgott fyrir annan eins bíl.

Útsýnið og beygjuradíusinn

Annað má finna að sem tengist stærðinni og það er útsýni ökumanns. Húddið nær langt til allra átta, toppflöturinn á mælaborðinu er helst til djúpur og þetta gerir það að verkum að úr verður allnokkur sjóndeildarhringur og ekki alltaf gott að átta sig á því hvort framendinn, einkum hornin, eru við það að rekast utan í eitthvað, t.d. þegar lagt er í bílastæði. Í ofanálag eru a-póstarnir talsvert sverir og allt þetta gerir það að verkum að útsýni ökumanns er minna fram á við en ákjósanlegt væri. Bakkmyndavélin sér svo aftur um sitt og það með sóma. Ekki veitti heldur af, því að beygjuradíusinn var drjúgur og það þurfti því að bakka svolítið fram og til baka þegar snúa þurfti bílnum við á bílastæði.

Gott útlit sem getur enn batnað

Ford Edge hefur til að bera reffilegt útlit og munar þar mestu um haganlega hannað framgrill. Fyrir bragðið er bíllinn tilkomumikill á vegi og svipur hans er auðþekkjanlegur í umferðinni. Samt læðist að manni sú tilfinning að það megi taka hönnun bílsins og skerpa hana lítið eitt í viðbót – hnitmiða svipinn aðeins. Ford Edge „lúkkar“ og engum blöðum er um það að fletta, en sá sem þetta ritar hefur á tilfinningunni að næsta andlitslyfting verði sannkallaður smellur.

Ford Edge kostar frá tæpum átta milljón krónum og svo fremi sem fólk setur ekki fyrir sig að bíllinn leggur meira upp úr mjúkum akstri frekar en urrandi snerpu er hann góður kostur í flokki sem er fullur af sterkum keppinautum, þar með talið Kia Sorento og Hyundai Santa Fe.

Edge er áhugaverður kostur í sínum flokki og til þess …
Edge er áhugaverður kostur í sínum flokki og til þess fallinn að veita vinsælum keppinautum verðuga keppni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Vélin vinnur möglunarlaust og skilar þýðri vinnslu en það mætti …
Vélin vinnur möglunarlaust og skilar þýðri vinnslu en það mætti heyrast örlítið meira í henni og togið þyldi alveg að vera aðeins ríflegra. Aksturinn er fyrst og fremst mjúkur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Innanrýmið er til fyrirmyndar í Ford Edge og efnisval fyrirtak. …
Innanrýmið er til fyrirmyndar í Ford Edge og efnisval fyrirtak. Helst má setja út á takmarkað útsýni ökumanns þar sem vélarhlífin er fyrirferðarmikil og A-bitarnir helst til sverir. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Baksvipurinn minnir talsvert á keppinautana í sama stærðarflokki með breiðan …
Baksvipurinn minnir talsvert á keppinautana í sama stærðarflokki með breiðan flöt frá afturljósum og niður að stuðaranum. Tvöfalt púst setur óneitanlega svip á annars lágstemmda hönnun, hér sem annars staðar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Það fer ljómandi vel um farþega í Ford Edge og …
Það fer ljómandi vel um farþega í Ford Edge og plássið sem ökumaður og farþegi í framsæti njóta er hreint ekki á kostnað þeirra sem aftur í sitja. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Farangursrýmið er feikigott og opnunin á skottinu sömuleiðis. Hér má …
Farangursrýmið er feikigott og opnunin á skottinu sömuleiðis. Hér má geyma og flytja flest það sem maður treystir jeppa til að flytja. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: