Er þetta örugglega Skoda?

Í Skoda Octavia VRS fer saman kraftur, bráðskemmtilegir aksturseiginleikar og …
Í Skoda Octavia VRS fer saman kraftur, bráðskemmtilegir aksturseiginleikar og notagildi. mbl.is/Golli

Það er óhætt að segja að gríðarmikið vatn hefur runnið til sjávar hjá Skoda á síðustu 30 árum. Vatnaskil urðu á vegferð þessa tékknesk-ættaða bílaframleiðanda þegar Octavian var fyrst kynnt fyrir 20 árum síðan og segja má að leiðin hafi legið nánast óslitið upp á við síðan þá.

Í dag eru Skoda alþekktir sem áreiðanlegir og fallega hannaðir bílar og fátt sem kemur manni á óvart hvað þá varðar lengur. Engu að síður rak undirritaður upp heldur stór augu þegar honum voru afhentir lyklarnir að Skoda Octavia Station VRS, sem er kraftmikil heldri útgáfa af þessum geysivinsæla bíl. Fyrir alla þá sem hefur langað að festa kaup á bíl sem sameinar áreiðanleika Octaviunnar og svolítið meiri töffaraskap þarf ekki að leita lengra.

Lágstemmdur en flottur

Tilsýndar er Octavia VRS smekklega gæjalegur án þess að tapa sér í útlitsstælum, og er það vel. Hér er enginn „ricer“ á ferðinni, en það er líklega mesta skammaryrði sem hægt er að splæsa á bifreið yfirleitt. Orðið er dregið af spænska orðinu „ricarius“ sem þýðir „sá sem gerir ekkert rétt, er glataður í öllu“ og ricer er notað um bíla sem eru glórulaust gíraðir til útlitslega, án tillits til aksturseiginleika, afls eða annars. Lýsandi dæmi um þetta væri 35 ára gamall Trabant með spoilerkitti, vindskeið á skottloki og þar fram eftir götunum – þið skiljið?

Octavia VRS er sannarlega með sínum sérkennum án þess að fara fram úr sér í hönnuninni. Til dæmis má nefna innfellt tvípúst fyrir neðan afturstuðarann, sérhannaðan framstuðara með svipmiklum loftinntökum og svo er enginn að hata að það skín í fagurrauðar keramikbremsur gegnum 18 tommu felgurnar, allar fjórar meira að segja! Hér er ekki verið að rembast við að láta bílinn líta út eins og eitthvert furðuverk en þess í stað halda útlitseinkenni Octavíunnar sér öll. Bíllinn er bara gerður eilítið gæjalegri og lukkast útlitsuppfærslan býsna vel.

Hvert er ég eiginlega kominn?!

Grunngerð VRS er ekki amalegur bíll en eintakið sem tekið var til kostanna var hreint út sagt hörkuvel búið enda nokkuð dýrara. Verulega flott kappaksturssæti, þægileg með hóflega djúpu fötulagi og fallegum hauspúðum, fanga strax athyglina og inn er komið. Neðanskorið stýrið rímað við sætin og allt innanstokks gefur til kynna að hér standi til að aka greitt, vægast sagt. Innréttingin er skemmtilega á skjön við yfirbygginguna, það er að segja að innandyra var allt kolsvart og ekkert sem gefur lit bílsins til kynna. En rétt eins og hönnunin að utan er flott í einfaldleika sínum þá eru innréttingin og mælaborðið að sama skapi lágstemmd og töff. Snertiskjárinn með stjórnborði bílsins er ljómandi þægilegur og fljótskilið hvernig á að skipta milli útvarps, akstursstillinga og annars sem þarf að eiga við. Í stuttu máli sagt er tilfinningin innandyra fantagóð og hún versnar síst þegar bíllinn er ræstur. Tveggja lítra díselvélin hljómar sérlega vel og ekki síst þegar bíllinn er stilltur á Sport-stillinguna; þá rymur hann hreinlega eins og eitthvað ítalskt og óyfirstíganlega dýrt. Þvílíkt dýrðarinnar vélarhljóð!

Fínasta tog úr ekki fleiri hestöflum!

Octavia VRS sem prófaður var er sem áður segir búinn díselvél sem telur alls 186 hestöfl. En rétt eins og maður les stundum veðurspá á þá leið að úti séu 10 gráður sem virki eins og 15 vegna logns, þá eru þetta 186 hestöfl sem virka eins og 205. Togið er fyrirtak og bíllinn fyrir bragðið sérlega skemmtilegur í akstri, keikur og kraftmikill. Sjálfskiptingin er 7 þrepa og er hún hreinasta afbragð.

Fjöðrunin er fantagóð, allar ójöfnur étnar upp og aksturinn áhyggjulaus eftir því. Bíllinn steinliggur í beygjum, ekki síst í Sport-stillingunni þegar fjöðrunin er með stífasta móti. Í lengri spottum milli bæjarfélaga er svo lag að setja hraðastillinn á og þá eyðir bíllinn sáralitlu; bíllinn státar af innan við 5 lítrum í blönduðum akstri. Innanbæjar á Sport-stillingunni er hann heldur þyrstari en það er vel ásættanlegt fyrir skemmtunina. Eins og einhver spekingurinn mælti forðum þá er lífið einfaldlega of stutt til að aka svona bíl öðruvísi en í Sport.

Notagildi í takt við skemmtigildi

Oft er það svo að bílar eru ýmist praktískir eða skemmtilegir en Octavia VRS sameinar þessi tvö gildi með miklum bravúr. Farangursrýmið er til að mynda feykilegt og það fer auk þess sérlega vel um ökumann og farþega, bæði hvað varðar olnboga- og fótarými. Þegar lág bilanatíðni er tekin með í reikninginn útleggst bíllinn sem sérlega skynsamlegur kostur, ekki síst í ljósi þess að það hefur aldrei þótt skynsamleg ráðstöfun fjármuna að kaupa leiðinlega bíla. Octavia VRS er um það bil eins skemmtilegur bíll og hægt er að búast við af skutbíl því í honum fer saman skemmtunin og skynsemin. Eins og framar greinir var sá bíllinn sem prófaður var drekkhlaðinn búnaði og því heldur í dýrari kantinum. Hátt verð er alltaf ókostur við bíl því það takmarkar kaupendahópinn, en full innistæða er í þessu tilfelli fyrir krónunum sem skipta um hendur þegar þessi dúndurskemmtilegi bíll er keyptur.

Skoda Octavia er alla jafna laglegasti bíll og VRS-útgáfan er …
Skoda Octavia er alla jafna laglegasti bíll og VRS-útgáfan er sérstaklega rennileg. mbl.is/Golli
Vélin hljómar svo fallega að helst minnir á eitthvað ítalskt …
Vélin hljómar svo fallega að helst minnir á eitthvað ítalskt og rándýrt. mbl.is/Golli
Allur búnaður er eins og best verður á kosið.
Allur búnaður er eins og best verður á kosið. mbl.is/Golli
Mismunandi akstursstillingar eru í boði en skemmtilegast er jú að …
Mismunandi akstursstillingar eru í boði en skemmtilegast er jú að aka í Sport. mbl.is/Golli
Innfelld púströr saka aldrei nema síður sé. Glæsilegur frágangur.
Innfelld púströr saka aldrei nema síður sé. Glæsilegur frágangur. mbl.is/Golli
Afskorið stýrið er miðjan í mjög vel heppnaðri innréttingunni.
Afskorið stýrið er miðjan í mjög vel heppnaðri innréttingunni. mbl.is/Golli
Allur búnaður er eins og best verður á kosið.
Allur búnaður er eins og best verður á kosið. mbl.is/Golli
Það gleður óneitanlega að sjá glitta í fagurrauðar keramikbremsur bakvið …
Það gleður óneitanlega að sjá glitta í fagurrauðar keramikbremsur bakvið fallegar felgurnar. Golli
Sætin sem og innréttingin öll er verulega sportleg og skemmtileg.
Sætin sem og innréttingin öll er verulega sportleg og skemmtileg. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: