Svo erfiður en svo yndislegur

Vélin er staðsett nokurn veginn mitt á milli fram- og …
Vélin er staðsett nokurn veginn mitt á milli fram- og afturhjóla og 4C næstum jafnstór á lengdina og breiddina. Er bíllinn helst borinn saman við Porsche 718 Boxter og Lotus Elise. Það hellirigndi dagana sem prófunin fór fram og þurfti því að mynda undir skyggni. Ljósmynd/Youssef Diop

Í dagbókum ungra efristéttarmanna og skálda frá fyrri öldum bregður stundum fyrir frásögnum af eldheitum ástarsamböndum við íðilfagrar sígaunastúlkur.

Það dregur ekkert úr ástarbálinu þótt þær séu erfiðar að tjónka við, sjálfstæðar og jafnvel hættulegar, og með öllu útilokað að fara með þær aftur heim á óðalið til að kynna fyrir fjölskyldunni. Hluti af sjarmanum er að aðra stundina eru þær blíðar og mjúkar og þá næstu hamslausar og grimmar. Þær eru yndislegar að eyða nokkrum dögum, vikum og mánuðum með, en verða seint lífsförunautar.

Mér varð hugsað til þessara sígaunastúlkna fyrr í vetur þegar ég fékk að verja nokkrum rigningardögum með Alfa Romeo 4C Spider suður í Mílanó. Þar áttum við í stuttu en yndislegu ástarævintýri sem ég er samt hálfpartinn feginn að skuli vera að baki.

Lítill og léttur

Alfa Romeo 4C hefur verið kallaður ódýrasti ofursportbíllinn. Fjögurra strokka vélin framkallar að vísu ekki nema 240 ítölsk hestöfl en á móti kemur að allt hefur verið reynt til að gera þennan litla bíl léttari. Í coupé-útgáfunni, sem kom fyrst á markað árið 2013, er 4C ekki nema 895 kg að þyngd en spider-útgáfan, sem kom á markað 2014, er 45 kílóum þyngri.

Meðal þess sem gerir bílinn svona laufléttan er að uppistöðugrindin er gerð úr koltrefjum, sem setur 4C í hóp með ofurbílum eins og LaFerrari og Aventador. Munurinn er sá að 4C myndi kosta í kringum 16 milljónir kominn á götuna á Íslandi en verðmiði LaFerrari og Aventador er á við gott einbýlishús.

Þá ákváðu hönnuðir 4C að sleppa aflstýrinu til að létta bílinn enn frekar og um leið beintengja ökumanninn við hverja minnstu hreyfingu framhjólanna og hverja dæld í malbikinu. Þeir létu meira að segja vera að koma fyrir pumpu til að halda uppi skottlokinu. Þess í stað þarf að halda lokinu uppi með því að skorða það á sínum stað með málmstöng. Svona er allt berstrípað til að skafa af kíló hér og þar. Útkoman er að bíllinn er innan við 4,5 sekúndur í hundraðið, sem er n.v. á sama reiki og Porsche 718 boxter.

Fagrar línur

Farþegarýmið er frekar fátæklegt en hefur samt sinn sportlega sjarma. Sætin er ekki hægt að stilla öðruvísi en með verkfærum, og plastyfirbragð á mælaborði og tökkum. Í stað hanskahólfs er agnarsmár vasi til að geyma skráningar- og skoðunargögn og á milli sætanna leynist box sem rúmar ekki mikið meira en hanska og sólgleraugu. Er útvarpstækið meira að segja af gömlu sortinni, í stað þess að vera hluti af innréttingunni.

En 4C bætir upp fyrir naumhyggjuna að innan með íburði að utan. Útlínurnar eru með öllu ómótstæðilegar. 4C er pínkulítill en hönnunin lætur hann líta út fyrir að vera stærri. Að utan sver bíllinn sig í ættina, og minnir um margt á 8C sportbílinn sem Alfa Romeo framleiddi frá 2007 til 2010.

Eins og vera ber með sportbíl var framkvæmt gláp-próf á götum Milanó, og þótt vegfarendur hafi ekki snarstöðvað og gapað gáfu margir bílnum auga.

Hrifnastur af öllum var þó ungi starfsmaðurinn á bensínstöð suður af Mílanó, þar sem tekið var stutt stopp á meðan ljósmyndarinn skaust á salernið. Þar sem ég beið vissi ég ekki fyrr en andlit birtist á glugganum farþegamegin. Þar var bensíndælumaðurinn kominn að gaumgæfa þennan sérstaka bíl. Hann brosti allan hringinn þegar ég sagði honum að væri í fínasta lagi að taka mynd.

Erfið sambúð

Fallegur er hann, og alveg nógu hraðskreiður, en Alfa Romeo 4C er allt annað en auðveldur bíll að búa með. Þegar ég settist fyrst inn í bílinn þurfti ég að hafa svo mikið fyrir því að smokra mér í bílstjórasætið að ég fékk krampa í annan fótinn. Er ég samt nokkuð léttur og lipur. Sætin eru hörð, fjöðrunin stíf og þarf sterka handleggi til að ráða við stýrið þegar ekið er í og út úr bílastæði. Skottið rúmar varla mikið meira en einn bakpoka og þarf að hafa mikið fyrir því að opna skottlokið enda er það þungt og opnast aðeins með því að ýta á takka inni í farþegarýminu – sem kemur sér ekki vel ef maður er með fangið fullt af innkaupapokum. Útsýni ökumanns til hægri er frekar takmarkað og meiriháttar kúnst að leggja bílnum í þröng ítölsk stæði.

Í akstri rennur síðan upp fyrir manni af hverju hönnuðirnir lögðu svona litla áherslu á útvarpið: þegar komið er út á hraðbrautirnar verður hávaðinn í farþegarýminu svo mikill að ekki heyrist mannsins mál.

Ekta akstursupplifun

En þrátt fyrir að vera óþægilegur og erfiður býr 4C yfir einhverjum göldrum sem er ómögulegt að standast. Hver bílablaðamaðurinn á fætur öðrum hefur fallið fyrir þessum bíl, þrátt fyrir alla ókostina. Einn gárunginn lýsti því þannig að þetta væri hinn fullkomni fimmti bíll í bílskúrinn. Það sem heillar er bæði útlitið og hráir og óbeislaðir aksturseiginleikarnir. Þetta er ökutækið fyrir menn og konur sem hafa virkilega gaman af að aka kröftugum, næmum og krefjandi bíl sem höfðar til hjartans frekar en til skynseminnar.

Fallegur er hann frá öllum hliðum en fallegastur aftanfrá og …
Fallegur er hann frá öllum hliðum en fallegastur aftanfrá og vekur eftirtekt gangandi vegfarenda.
Bakpoki til viðmiðunar sýnir hvað skottið, við hlið vélarinnar, er …
Bakpoki til viðmiðunar sýnir hvað skottið, við hlið vélarinnar, er smátt.
Sætin eru falleg, þó ekki sé hægt að stilla þau. …
Sætin eru falleg, þó ekki sé hægt að stilla þau. Allt er gert til að létta.
Lítið hólf er milli sætanna.
Lítið hólf er milli sætanna.
Ekkert truflar tilfinninguna. Hjólin eru sem beintengd við ökumann.
Ekkert truflar tilfinninguna. Hjólin eru sem beintengd við ökumann.
Farþegarýmið er allt sniðið að ökumanninum. Velja má um þrjár …
Farþegarýmið er allt sniðið að ökumanninum. Velja má um þrjár akstursstillingar s.s. fyrir hálku og span.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: