Guli gleðigjafinn

Gulur er einkennislitur Greyp en velja má um fjölda annara …
Gulur er einkennislitur Greyp en velja má um fjölda annara lita. Skemmtilegt farartæki en mætti vera ódýrara.

Reyndu bara að fara varlega af stað,“ sagði fjölmiðlafulltrúinn við mig.

Ég hugsaði sem svo að hann Pavao væri bara að reyna að hafa vaðið fyrir neðan sig, enda örugglega alls kyns rugludallar úr bílablaðamannastétt sem kæmu til hans að prufukeyra Greyp rafmagnsmótorhjólið. Hvað gæti farið úrskeiðis á þessari hljóðlausu gulu písl?

Með þumalfingri hægri handar stjakaði ég lauflétt við hnappinum sem stýrir rafmótornum. Um leið fann ég framhjólið rísa og skildi þá loks hvað Pavao átti við.

Í október skrifaði ég um heimsókn mína til króatíska rafbílaframleiðandans Rimac sem smíðar tryllingslega ofur-rafbílinn Concept_One. En Rimac framleiðir ekki bara bíla, því í verksmiðjunni þeirra í Zagreb verða líka til rafmagnsmótorhjól.

Þegar maður leiðir hugann að því, þá er ekki óskynsamlegt að dreifa framleiðslunni með þessum hætti. Rafhlöðutæknin, koltrefjavélarnar, hönnuðirnir og smiðirnir eru til staðar og þarf ekki að bæta miklu við yfirbygginguna til að smíða hjólin. Markaðurinn er líka stærri fyrir 7.300 evra rafmagnsmótorhjól (fyrir skatt) en milljón dollara ofursportbíla.

Í flokki öflugustu hjóla

Greyp er óvenjulegt farartæki. Mótorinn framleiðir ekki nema 12 kW en til samanburðar skila vélarnar í ítölskum ofurmótorhjólum um og yfir 120 kW til hjólanna. Á móti kemur að Greyp er ekki nema um 48 kg að þyngd, helmingi léttari en dæmigerð Vespa, svo að hlutfall krafts og þyngdar setur hjólið í A-flokk. Þarf því sams konar ökuréttindi til að aka þessu rafmagnshjóli og til að aka öflugustu mótorhjólum.

En Greyp er líka með pedala eins og reiðhjól, svo ökumaðurinn er ekki endilega stopp þó að rafhlöðurnar tæmist, og getur hjálpað rafhlöðunum til að auka drægið. Framleiðandinn segir drægi Greyp allt að 120 km á rafhlöðunum einum saman og á að taka 80 mínútur að fylla rafhlöðurnar. Pedalarnir valda því að fæturnir sitja ekki eins og á mótorhjóli, heldur þarf annar fóturinn, eðli málsins samkvæmt, að vera ögn framar eða ögn ofar en hinn – en það venst. Á móti kemur að ekki þarf að fikta við neina gírskiptingu eða fetta úlnliðinn til að gefa í: kraftinum er einfaldlega stýrt með litlum takka hægra megin á stýrinu. Algjör byrjandi á þess vegna mjög auðvelt með að hafa stjórn á Greyp og helsti vandinn að gæta þess að gefa ekki of mikið inn.

Fingrafaraskanni í stað lykils

Króatísku verkfræðingarnir hafa hlaðið Greyp ýmsum sniðugum fídusum. Þannig er notaður fingrafraskanni til að kveikja á hjólinu. Þumalputtinn stillir hjólið á „götuhraða“ sem takmarkar hámarkshraðann við 25 km/klst, en með löngutöng skrúfast alveg frá krananum og verður hámarkshraðinn þá 70 km/klst.

Á miðju stýrinu er snertiskjár sem miðlar alls kyns upplýsingum til ökumanns, s.s. um hraða, orkunotkun, sparneytni og drægi, og þar er líka takki til að slökkva eða kveikja á framljósunum.

Öll lögun og fjöðrun hjólsins er síðan gerð með akstur utan veg í huga. Greyp er fínt til að skjótast milli staða innanbæjar en á líka heima á skógarstígum og möl. Fjölmiðlafulltrúinn tjáði mér að hjólið væri sérlega skemmtilegt í snjó og ís og meira en nóg pláss til að koma fyrir dekkjum með stórum nöglum.

Greyp er því farartæki með klofinn persónuleika: Annars vegar er þetta hjól sparneytið (en helst til dýrt) og hentugt til daglegs rólegheitaaksturs innanbæjar, og svo létt að má vippa inn á stofugólf eða stigagang; en hins vegar er Greyp prjónandi og skrensandi leikfang til að hoppa og skoppa á um torfærur, skríkjandi af kæti.

Með fullkominni tækni er leitast við að hámarka nýtingu orkunnar.
Með fullkominni tækni er leitast við að hámarka nýtingu orkunnar.
Hver þarf lykil á árinu 2017? Fingrafaraskanni er málið.
Hver þarf lykil á árinu 2017? Fingrafaraskanni er málið.
Fjöðrunin og hönnunin öll ræður vel við krefjandi torfærur.
Fjöðrunin og hönnunin öll ræður vel við krefjandi torfærur.
Glottandi blaðamaður á króatíska leikfanginu. Greyp vill fá að prjóna.
Glottandi blaðamaður á króatíska leikfanginu. Greyp vill fá að prjóna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: