Kia Stonic bætir sér í borgarjeppaslaginn

Eins og lesendum Bílablaðs Morgunblaðsins ætti að vera fullkunnugt um þá er svokallaður B-SUV- flokkur sá sem hvað mest gróska er í um þessar mundir. Hver framleiðandinn á fætur öðrum hoppar á vagninn og sendir frá sér bíl í flokkinn enda eftir allnokkru að slægjast; flokkurinn er sá sem vex örast þessi misserin og spár segja til um að téður flokkur verði sá stærsti í Evrópu 2020.

Það er því skiljanlegt að helstu framleiðendur vilji sína sneið af kökunni. Til glöggvunar má segja að B-SUV-bílar eru litlir borgarjeppar (við ættum kannski að kalla þessa bíla „smáborgara“ til auðkenningar)

og til samanburðar er annar slíkur tekinn til kostanna hér á opnunni á undan. Kia Stonic sver sig í ættina, snaggaralegur og skemmtilega hannaður, hugsaður til að trekkja að unga kaupendur með hressilegum litum, valkosti á þaki í öðrum lit og hæfilega flippaðri innréttingu. Í það heila hefur vel tekist til.

Speedy + Tonic = Stonic

Fyrir þau ykkar (flest ykkar, ekki satt) sem eruð að velta nafninu Stonic fyrir ykkur, þá er þetta bræðingur úr orðunum „speedy“ og „tonic“ en þau eiga að fanga anda bílsins öðrum betur. Við höfum þegar séð aðra framleiðendur leika þennan leik við nafngiftir nýrra bíla, svo sem Volkswagen sem bjó til Tiguan úr „tiger“ og „iguana“ en það er önnur saga. Kia fá fólk til að tala um nafnið og þar með er tilganginum náð. Þeir eru til að mynda komnir inn í kollinn á okkur héðan af, því verður víst ekki neitað.

Ásýndar er Stonic laglegur að sjá. Hann er með alþekkt tígur-grillið sem einkennir Kia-fjölskylduna og sömu láréttu, knöppu framljósin. Þá eru þokuljóskastarar staðsettir í býsna svipmiklum hólfum undir framljósunum og það er nóg að gerast í hönnun framendans til að fá mann til að staldra við. Bíllinn er einfaldlega andlitsfríður og flottur að sjá hvað framendann varðar. Hliðarsvipurinn er að sama skapi flottur og C-bitinn hefur þar sitt að segja enda er hann í öðrum til en A- og B-bitarnir. Umfang hans kemur reyndar aðeins niður á útsýni ökumanns, en „beauty is pain“ eins og þar stendur. Einnig er vert að benda á innfelldar vindlínur á hurðaflekunum, sem ná frá framhjólum til afturhjóla og gefa bílnum flottan svip. Að aftan er Stonic líka fínn, og gæjalegur hlífðarkantur neðst á afturstuðara hefur þar mikið að segja. Í heild laglegur bíll að sjá og það er skemmtilegt hvernig þakbogarnir eru útfærðir en þeir enda einfaldlega án snertingar við þakið sem fær mann til að kíkja á þá aftur.

Lúkkar flott þó að allt sé í plasti

Inni við minnir allt óneitanlega á bróðurinn Kia Rio. Útlitið er laglegt og nútímalegt, mikið af aðgengilegum búnaði, snjalltengimöguleikar eins og vera ber, og ýmsar aðgerðir í sportlegu og fallega hönnuðu stýrinu. Efnisvalið er plast, og á meðan það kann að stuða suma fagurkera er bara að hafa í huga að hér er markhópurinn í yngri kantinum og þar kann fólk að meta hagstætt verð án þess að setja fyrir sig að innréttingar séu ekki fílabeil og íbenholt. Stonic lúkkar og það er það sem telur.

Helst er hætt við að fólk sem komið er með fjölskyldu finni að því hve skottplássið er naumt því það nær ekki 400 lítrum með aftursætin uppi. Plássið er nánar tiltekið 352 lítrar og það er heldur lítið. Reyndar fjórfaldast það nærfellt við að fella aftursætin niður – verður þá 1.155 lítrar – en slíkt er vitaskuld ekki valkostur þegar þrír eða fleiri ætla saman út úr bænum.

Fimur í borg, fjörugur á vegum

Eins og nafnið „borgarjeppi“ gefur til kynna er gert ráð fyrir að bíllinn hafi drjúgt notagildi innan borgarmarkanna. Það gerir Stonic líka og hann stóð sig með prýði þegar hann var reyndur innan borgarmarka Berlínar, og ekki var hann síðri á þjóðveginum í nærsveitum borgarinnar eða þá á hraðbrautunum í kring. Stonic er ekki sprúðlandi skemmtitæki með ótakmarkaðan kraft en hann er fínn í akstri og eyðslutölur eru mjög góðar, bæði í bensín- og dísilútgáfum bílsins. Veghljóð var lítið sem ekkert, vélarhljóð vart teljandi nema þegar bílnum var gefið ærlega inn og aksturinn almennt þægilegur.

Kia Stonic er einmitt það sem markaðurinn er að kalla eftir um þessar mundir, tikkar í flest boxin sem nýr bíll í B-SUV flokki þarf að hafa til að bera en líður óneitanlega fyrir lítið farangursrými.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina