Aygo X í stórborginni

Toyota Aygo X er talsvert vöðvameiri að sjá en fyrirrennarinn …
Toyota Aygo X er talsvert vöðvameiri að sjá en fyrirrennarinn og útlitið sækir ýmislegt til jepplinga. Eftir sem áður er hann borgarbíll og á ekkert erindi utanvega. Toyota

Toyota kynnti í liðnni viku hinn nýja Aygo X (borið fram Aygo kross), sem leysir borgarbílinn Aygo af hólmi. Blaðamaður Morgunblaðsins fékk forskot á sæluna í fyrri viku og fékk að reyna þessa nýju afurð Toyota á götum Barcelona.

Aygo X er talsvert sportlegri að sjá en fyrirrennarinn, en bæði nafnið og hönnunin miða að því að þoka honum nær jepplingum í huga þeirra sem sjá hann og aka. Engum blöðum er þó um það að fletta að

Aygo X er ennþá fyrst og fremst lipur borgarbíll og hann á ekkert erindi í torfæru eða spyrnu.

Borgarbílar á krossgötum

Notagildi borgarbíla verður sífellt augljósara: þeir eru litlir og liprir, ódýrir og sparneytnir bílar, sem henta vel í þröngum borgum Evrópu, en þeir hafa einnig notið æ meiri vinsælda hér á landi í snattið, sem fyrsti bíll ungra ökumanna eða annar bíll á heimili. Framboðið á þeim virðist hins vegar hafa farið minnkandi, en það má bæði rekja til aukinna útblásturskrafna og hækkandi framleiðslukostnaðar, sem að nokkru leyti tengist aðfangaörðugleikum heimsfaraldursins.

Toyota í Evrópu hefur hins vegar trú á borgarbílnum og erindi hans, en Aygo X undirstrikar það vel og þau tækifæri, sem Toyota eygir ef aðrir framleiðendur gefa smæstu bílana upp á bátinn. Hann mun eftir sem áður keppa við bíla á borð við Hyundai i10 og Kia Picanto. Spurningin er kannski frekar hvenær við sjáum rafknúnar útgáfur þeirra, en þegar blaðamaður innti fulltrúa Toyota eftir því svaraði hann því til að þótt vanalega gæfi fyrirtækið ekkert upp um framtíðina, þá væri því vel ljóst hvert straumurinn lægi og myndi hafa mikið um þróunina að segja á næstu árum.

Sportlegur evrópskur bíll

Þrátt fyrir að Aygo X sé frá Toyota, þá er hann eins evrópskur og hugsast getur, hannaður í Frakklandi og Belgíu með þarfir evrópskra neytenda í huga, vélin frá Póllandi en bíllinn smíðaður í Tékklandi. Hér er líka um nýjan bíl að ræða, öfugt við fyrri útgáfuna er hann alfarið á vegum Toyota en ekki í samstarfi við aðra (gamli var svo að segja sami bíll og Citroën C1 og Peugeot 108 sem nú eru að hverfa). Á hann í raun mun meira skylt við Yaris og Yaris Cross en gamla Aygo.

Nafnið Aygo X (kross) gefur til kynna að honum sé ætlað að brúa bil, vera einhvern veginn á milli borgarbíls og einhvers annars, en eins og sjá má sver útlitið sig að miklu leyti í ætt við jepplinga... eða gefur slíkan skyldleika í skyn. Það má sjá á línunum í hönnuninni, brettaklæðningunni, hann er 5 cm hærri en fyrirrennarinn og ökumaðurinn situr hærra í bílnum. Fyrst og fremst er það þó útlitshönnunin, sem ætlað er að gera bílinn meira spennandi og sportlegri, og það gengur upp að mestu leyti. Toyota segir að Aygo X eigi að vera krydd í tilveruna og litasamsetningarnar vísa líka til þess, en bílinn má fá sem græna kardemommu, rauðan chili, brúngulan engifer eða blá einiber.

Áður en lengra er haldið er þó rétt að taka fram að allar myndir á opnunni eru af sérstakri og takmarkaðri gerð bílsins, Aygo X Limited, sem verður aðeins til sölu fyrstu fimm mánuðina, en staðalgerðirnar eru ekkert slor heldur.

Bíllinn er hærri en áður, en rennilegar línurnar láta hann …
Bíllinn er hærri en áður, en rennilegar línurnar láta hann virðast enn hærri, sér í lagi að aftan.

Vel búinn fyrir borgarakstur

Þó að þetta sé einfaldur og ódýr bíll, þá er búnaðurinn ágætlega útilátinn. Grunngerðin er með 17" álfelgum, 7" snertiskjá, bæði Apple CarPlay og Android Auto, auk öryggiskerfisins Safety Sense, sem innifelur hraðastilli, árekstravara, sjálfvirk háljós og neyðarstýrisaðstoð. Miðgerðin (Edge) hefur 18" felgur, 7" snertiskjá, lofthitakerfi, sjálfvirkar rúðuþurrkur og þokuljós, en einnig má fá strigatopp til þess að opna bílinn að ofan á góðviðrisdögum. Fínasta gerðin (Exclusive) er með gervileðursætum, þráðlausri símhleðslu, LED-ljósum, lykillausri aflæsingu og ræsingu, sjálfvirkri lagningu, 9" HD snertiskjá, nettengingum og fleiru, en við má bæta JBL-hljóðkerfi. Fyrrnefnd Limited-útgáfa bætir svo við svartmöttum álfelgum, appelsínugulum áherslum í útliti, upphituðum sætum, sem eru að hluta úr leðri, og ýmsu fleiru.

Þetta er allt til þess fallið að gera aksturinn þægilegri og bílferðina ánægjulegri, en ekki síst þó að gera bílinn skemmtilegri að sjá, bæði að utan sem innan, jafnvel krúttlegri.

Sportlegur, en ekki sportbíll

En þetta er enginn sportbíll, bara svo að það sé sagt, enda er hann ekki smíðaður til þess. Í honum bærist enginn draumur um að breytast úr Fiat 500 í Abarth 500. Þetta er fyrst og síðast borgarbíll.

Allir Aygo X-bílarnir eru með eins lítra, þriggja strokka vél, sem skilar af sér 71 hestafli. Grunngerðin er með fimm gíra kassa, svolítið stífum, en það má líka fá CVT-sjálfskiptingu, sem er fín.

Vélaraflið er yfrið nóg í borgaraksturinn, en sem fyrr segir er hann ekki að fara að setja nein hraðakstursmet, ekki mjög snarpur upp (15,6 sek. í hundraðið) og snöggur framúrakstur ekki á dagskrá. Hann er vel þolanlegur á þjóðveginum, en fari menn daglega austur yfir fjall yrði hann fljótt þreytandi. Enda borgarbíll. En í borginni er hann líka fullgóður.

Aygo X dregur auðveldlega að sér athygli og ber með …
Aygo X dregur auðveldlega að sér athygli og ber með sér að hafa eitthvað kemmtilegt við sig.

Stærri að innan

Hann er stærri en gamli Aygo, en samt ennþá afskaplega nettur, kemst í agnarsmá stæði og léki sér að þröngum götum Grjótaþorps og Þingholta. Og beygjuradíusinn er bara rugl, 4,7 m. Stækkunin á bílnum er ákaflega vel nýtt innandyra. Frammi í að minnsta kosti. Ökumaðurinn situr hærra og er samt með aukið höfuðrými, en olnbogarýmið er líka talsvert meira en var. Aftur í er ekki alveg sömu sögu að segja, fínt fyrir krakka en fullorðnir sitja þar ekki mjög lengi. Sem er kannski allt í lagi, aftursæti borgarbíla eru sáralítið nýtt undir fullorðna. Hins vegar hefur verið rýmkað um skottplássið, sem vel mátti við (231 l). Þar er nú hægt að koma fyrir vænum helgarinnkaupum eða ferðatösku, en svo má líka leggja niður aftursætin og raða enn meiru inn.

Hann er það sem hann er

Það er ódýrt og auðvelt að segja að það sem Aygo X vanti sé meiri kraftur og auðvitað er ekki útilokað að í framtíðinni bæti Toyota við sportlegri útgáfu. En hann væri þá ekki sami bíll og lagt var upp með. Hvað þá ef gerð væri rafmagnsútgáfa, því þótt vélin væri lítil og með nægt tog væri eftir að finna rafhlöðunni stað án þess að fórna skottplássi. Jú, kannski undir öllum bílnum sem þá yrði bæði hærri og þyngri, en ekki lengur sami bíll. Og tæplega í sama verðflokki heldur, en það er nú kannski mikilvægasti þáttur tæknilýsingarinnar.

Toyota Aygo gerir það sem honum er ætlað, en annað ekki. Hins vegar er hann með mun fjörlegra útlit en áður. Toyota telur að hann muni höfða betur til kvenna en áður, sem má vel vera rétt, en hann er engu síðri fyrir hagsýna karla, sem ekki þurfa bráðnauðsynlega á torfærutryllitæki að halda í innanbæjarakstrinum.

Þetta var ekki eiginlegur reynsluakstur en af þessum dagparti á götum Barcelona var ljóst að Aygo X er afar lipur borgarbíll, sem kemst allt sem hann þarf, þótt hann geri það kannski ekki ákaflega hratt. En það er dyggð út af fyrir sig, því bíllinn er ódýr, sparneytinn og losar lítið. Hann er mjög praktískur í notkun (ef krakkarnir eru ekki þeim mun lengri) og mun þægilegri en búast mætti við af ekki stærri bíl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina