Nýtt bætiefni skilar sparnaði

Kemi kynnir PD-5. Frá vinstri: Haraldur E. Jónasson sölumaður, Aaron …
Kemi kynnir PD-5. Frá vinstri: Haraldur E. Jónasson sölumaður, Aaron McVitty framkvæmdastjóri tæknisviðs Fuel-Tec, Karl Devlin framkvæmdastjóri Fuel-Tec og Jón Viðar Óskarsson framkvæmdastjóri Kemi.

Ný bætiefni fyrir eldsneyti, PD-5, voru í fyrsta sinn kynnt á fréttamannafundi sem Kemi ehf. hélt á dögunum. Um er að ræða þrjár mismunandi gerðir af PD-5 en þessi umhverfisvænu bætiefni draga verulega úr útblástursmengun og jafnframt úr notkun eldsneytis. Prófanir sem gerðar hafa verið hér á landi staðfesta 6-13% eldsneytissparnað. Efnið er nú komið í sölu á Íslandi.

Dregur úr gróðurhúsalofti

„Reynslan sem fengist hefur á Íslandi eykur okkur bjartsýni um að PD-5 verði fyrr en seinna jafnsjálfsagt og eldsneyti á allar vélar og tæki sem brenna jarðefnaeldsneyti. Sparnaðurinn er mikill en minni mengun er enn mikilvægari,“ segir Jón Viðar Óskarsson, framkvæmdastjóri Kemi ehf. Karl Devlin, framkvæmdastjóri Fuel-Tec Ltd., segist binda miklar vonir við árangur af notkun PD-5 á Íslandi. „Við teljum að með bætiefnunum megi draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda við fiskveiðar og -vinnslu, flutningaþjónustu og hvarvetna á Íslandi þar sem notuð eru tæki knúin jarðefnaeldsneyti.“

Andrés Guðmundsson, útgerðarstjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík, er ekki í nokkrum vafa um ágæti PD-5-bætiefnisins, sem prófað hefur verið á Wickman-vél í línubátnum Ágústi GK 95. „Olíusparnaður hjá okkur hefur verið 6% með PD-5 og sótvandamál eru úr sögunni. Miðað við ársnotkun er þetta sparnaður upp á 2-3 milljónir króna. Við vonum hins vegar að við sjáum enn stærri tölur í sparnaði í viðhaldi því bætiefnið hreinsar óhreinindi úr olíunni sem leiðir til betri bruna.“

Reynslan er góð

Reynsla notenda af efninu er afar góð. Tilraunir með PD-5 í fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins í Vestmannaeyjum benda til þess að með notkun þess hafi náðst umtalsverður olíusparnaður. Fyrirtækið hefur ákveðið að nota áfram PD-5-bætiefnið.

mbl.is