Forstjórarnir vilja Jagúar

Bílamerki eru í mismiklu uppáhaldi eftir löndum en víða er kannað ár hvert hvaða bíleigendur séu ánægðastir með farartæki sín. Í ár eru eigendur Jagúarbíla þeir ánægðustu í Bretlandi.

Síðastliðin ellefu ár hefur Lexus reynst eigendum sínum það vel að hann hefur verið efstur á ánægjuvoginni þar til í ár. En fallið er ekki mikið, niður í annað sætið sem japanski lúxusvagninn deilir þó með Skoda.

Allt með í reikningnum

Í athuguninni sem fyrirtækið J.D. Power and Associates stóð fyrir í samvinnu við tímaritið What Car? tóku átján þúsund bíleigendur þátt en forsenda var að þeir hefðu átt viðkomandi bíl í tvö ár. Nánast allt er varðar bíleign var tekið með í reikninginn; geta bílsins, hönnun, þægindi og gæði, rekstrarkostnaður og þjónusta umboða og svo mætti áfram telja.

Það var ekki aðeins að mest ánægja var með Jagúarmerkið heldur var XF-bíllinn valinn forstjórabíll ársins 2012 í Bretlandi. Hækkaði hann um 15 sæti í þeim flokki frá í fyrra.

Í 27. og neðsta sæti í könnuninni varð Chevrolet og í því næstsíðasta breski framleiðandinn Vauxhall. Aðeins eitt bílmerki Chevrolet kom til álita í könnuninni, Matiz, því of stutt er frá því Spark og Cruze komu á markað til að verða taldir með. Þjónusta umboða Chevrolet kom ágætlega út svo útlit þykir fyrir að merkið hækki á listanum á næsta ári.

Á eftir toppbílunum þremur var Honda í fjórða sæti, Mercedes Benz í fimmta, Toyota í sjötta, Audi í sjöunda, Volkswagen í áttunda, Volvo í níunda og í tíunda sæti urðu BMW og Nissan jöfn.

Sportage er spennandi

Fyrir utan botnsætin tvö var Fiat í 25. sæti, Suzuki í 24., Renault í 23., Mitsubishi í 22., Hyundai og Citroen deildu 20. sæti, Alfa Romeo var í 19. sæti og Peugeot og Mazda deildu 17. sæti.

Þótt ánægja sé mest í ár með Jagúarmerkið í Bretlandi þá eru eigendur Kia Sportage þó þeir ánægðustu þegar einstakar bílgerðir voru metnar. Á hinum enda þess skala varð Vauxhall Vectra, næst á eftir Nissan Pixo. Toyota iQ mældist besti borgarbíllinn, Honda Jazz besti ofursmábíllinn, Skoda Octavia besti litli fjölskyldubíllinn, Toyota Prius besti fjölskyldubíllinn, Lexus IS besti forstjórabíllinn af smærri gerðinni og Jagúar XF besti forstjórabíllinn, sem fyrr segir. VW Scirocco kom best út meðal sport- og blæjubíla, Mercedes B-klassinn meðal fjölnotabíla, Kia Sportage var vinsælastur í flokki smájeppa og Lexus RX í flokki stærri jeppa.

mbl.is

Bloggað um fréttina