Safnar Bjöllum á Siglufirði

Bláar og báðar eru flottar. Jón Hólm við Bjöllurnar sem …
Bláar og báðar eru flottar. Jón Hólm við Bjöllurnar sem hann hefur tekið ástfóstri við, enda þó þær dugi aðeins fyrir sumarið á Siglufirði þar sem er mikið vetrarríki og virkileg þörf á jeppa þegar mest snjóar. Ljósmynd/Sveinn Þorsteinsson

„Bjöllurnar báðar eru einskonar sparibílar hjá mér og í vetur verða þeir báðir geymdir inni í skúr,“ segir Jón Hólm Hafsteinsson á Siglufirði. Athygli ferðamanna sem um bæinn fara vaknar stundum þegar þeir sjá bílana tvo sem standa við heimili Jóns við Kirkjustíg. Þetta eru tvær Volkswagen Bjöllur; önnur í gömlu útgáfunni frá 1972 og svo önnur í nútímastíl sem er árgerð 2004. Og báðir eru bílarnir bláir að lit og með einkanúmerum með bókstafnum F, sem var einkennismerki Siglufjarðarbíla skv. gamla bílnúmerkerfinu.

„Gamla Bjallan er algjört eftirlæti, einskonar sparibíll fyrir sunnudagsrúntinn hér um bæinn. Þetta er bíll sem faðir minn átti fyrst en fól mér svo. Yngri Bjölluna eignaðist ég í fyrravetur; fann hana í gegnum netið á bílasölu í Reykjavík og fannst alveg upplagt að eiga tvo bíla sömu gerðar og báða ljósbláa. Bílinn fékk ég sendan norður með flutningatrukk og sótti síðan inn á Akureyri. Hefur bíllinn reynst afar vel; hann líður vel á vegi og eyðslan er hófleg. En það verður hins vegar að segjast að litlir bílar eins og Bjallan dugar ekki nema sem sumarbíll í snjóþungum bæ eins og hér á Siglufirði. Því er ég með þriðja bílinn í takinu, Suzuki-jeppa sem er hversdagsbíllinn og í notkun allt árið meðal annars til að fara á úr og í vinnu,“ segir Jón Hólm sem er starfsmaður Fiskmarkaðar Siglufjarðar.

Faðir Jóns, Hafsteinn Hólm Þorleifsson, sem lést fyrir um tveimur árum, ók lengi um á bílum merktum F-587 og nú eru spjöld með því númeri á Bjöllunni gömlu. Og einkanúmerið á hinni Bjöllunni er næsti bær við, það er F-578. „Áhugi á Bjöllum hefur fylgt mér alveg frá barnæsku og bíladellan er ódrepandi,“ segir Siglfirðingurinn að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina