Ford Focus stefnir í að verða söluhæsti bíllinn í ár

2012 árgerðin af Ford Focus frumsýnd á bílasýningunni árlegu í …
2012 árgerðin af Ford Focus frumsýnd á bílasýningunni árlegu í Los Angeles. mbl.is/ap

Ford bílaverksmiðjurnar halda því fram að Ford Focus stefni í að verða söluhæsti fólksbíll ársins, muni velta Toyota Corolla úr efsta sætinu.

Á fyrri helmingi ársins seldi Ford 489.616 Focusbíla um heim allan. Reyndist það 27.000 eintökum fleira en seld höfðu verið á sama tíma af Corolla, sem verið hefur söluhæsti bíll heims um árabil.

Focus hefur verið seldur í rúmlega 100 löndum það sem af er árinu. Hann selst vel í Bandaríkjunum og er aukningin í ár 31% miðað við fyrri helming ársins í fyrra. Á heimavelli Ford seldist þó Corolla í 27.500 fleiri eintökum en Focus fyrstu sex mánuðina í ár.

En eins og í hverju langhlaupi skiptir máli hver verður fyrstur yfir marklínuna, ekki hver hefur forystu í hálfnuðu hlaupi. Því gæti allt eins farið svo að Corollan dragi Focus uppi og sigli fram úr í árslok. Nákvæmlega það gerðist í fyrra; þá var Focus söluhærri eftir hálft ár en á endasprettinum seig Corollan fram úr og seldist í 100.000 fleiri eintökum en Focus.

Um leið og forsvarsmenn Ford tilkynntu um söluforystu Focus í dag minntist fyrirtækið þess að það hefur smíðað 350 milljónir farartækja frá því það var stofnað fyrir 109 árum. Ekki svo lítið afrek það, jafngildir rúmlega eittþúsund bílum á hvern Íslending.

agas@mbl.is

mbl.is