Nissan Pivo 3 sagður bíll morgundagsins

Nissan hefur ætíð verið í fylkingarbrjósti í þróun nýrrar tækni fyrir aðgengilega rafbíla. Á Parísarsýningunni á dögunum sýndi bílsmiðurinn hinn mjög svo nýstárlega og frumlega Pivo 3 hugmyndabíl í fyrsta sinn í Evrópu.

Hér er um ofursmáan borgarrafbíl að ræða sem bætir upp rafbílinn Leaf frá sama framleiðanda. Hann er býsna byltingarkenndur því með svonefndum AVP-búnaði getur hann parkerað sér sjálfur. Bílstjórinn þarf ekki lengur að leita að stæði og síðan muna eftir hvar hann lagði.

Pivo 3 getur séð um þetta allt upp á eigin spýtur. Að því tilskildu þó að sérlega búin bílastæði eða bílastæðahús séu fyrir hendi.

Þetta er talið geta orðið mikið aðdráttarafl að bílnum því ótrúlega miklum fjölda bílstjóra hrýs jafnan hugur við því að leggja bíl í stæði, sérstaklega innan um fjölda bíla.

Þráðlaus hleðsla

Með avp-búnaðinum getur Pivo 3 einnig hlaðið rafgeyma sína sjálfur – í gegnum þráðlaust samband meðan hann stendur í stæðinu. Einnig er hægt að hlaða rafgeyma bílsins með venjulegri heimilistaug. Og þegar eigandinn hefur lokið erindum sínum eða vinnu dugar honum að hringja í bílinn með snjallsíma, þá snýr hann aftur til eiganda síns af eigin rammleik.

Pivo er einstaklega samanrekinn bíll, um þrír metrar að lengd og tekur þrjá einstaklinga í sæti. Ökumaðurinn situr fyrir miðju og hálfri sætislengd fyrir framan farþegana tvo. Með því fyrirkomulag hefur hann afar gott útsýni til allra átta.

Óvíst um fjöldaframleiðslu

Lítil stærð bílsins og rafmótor við hvert hjól gerir að verkum að beygjuradíus Pivo 3 er einstaklega stuttur, eða aðeins tveir metrar. Beygja bæði afturhjól sem framhjól og því snýst Pivo 3 nánast um sjálfan sig á punktinum. Þarf aðeins fjögurra metra breitt svæði til að snúa við; taka 180° beygju.

Óljóst er hvort Nissan ræðst í fjöldaframleiðslu á þessum bíl og þá hvenær. Allt eins er við því að búast, miðað við allan þann tíma og fjármuni sem lagðir hafa verið í þróunarstarf við Pivo 3 og forvera hans.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina