Dýr fyrrverandi forstjóri Lotus

Dany Bahar, hinn brottrekni forstjóri Lotus
Dany Bahar, hinn brottrekni forstjóri Lotus

Dany Bahar, forstjóri Lotus-bílaframleiðandans, sem rekinn var í sumar ,var eigendum sínum dýr og gæti orðið því enn dýrari. Bahar var rekinn fyrir óhófleg persónuleg útgjöld og er Lotus nú að reyna að fá til baka kostnað, laun og bónusa uppá hálfan milljarð króna frá forstjóranum fyrrverandi.

Kröfu sinni til stuðning benda eigendur Lotus á að Bahar hafi síður en svo tekist að snúa taprekstri Lotus við, sem hann var ráðinn til, heldur þvert á móti hafi hann einungis verið upptekinn af lúxuslífi og fjárútlátum á reikning Lotus. Dany Bahar hefur á hinn bóginn stefnt Lotus fyrir brigsl, órökstudda brottvikningu og vangreidd laun og nema kröfur hans 1.350 milljónum króna.

Lotus er í eigu malasíska bílaframleiðandans Proton og stjórnað af milljarðamæringnum Syed Mokhtar Al-Bukhary. Proton keypti Lotus árið 1996 og hefur fyrirtækið verið rekið með tapi allar götur síðan.

Svo virðist sem eigendur Lotus hafi sitthvað máli sínu til stuðnings því Bahar eyddi milljón pundum í leigu  og endurbætur á tveimur lúxusíbúðum í Bretlandi, 1,2 milljónum punda í ferðalög, sem títt voru farin á þyrlum eða einkaþotum, og 3.000 pundum í armbandsúr, svo eitthvað sé nefnt. Spennandi verður að fylgjast með hvor aðilinn fer með sigur í þessu máli.

mbl.is

Bloggað um fréttina