Fæstir kaupa bíl í næstu framtíð

mbl.is

80% landsmanna telja það mjög eða frekar ólíklegt að þau muni kaupa sér bíl á næstu sex mánuðum. Kemur þetta m.a. fram í væntingavísitölu og stórkaupavísitölu Capacent Gallup.

Íslenskir neytendur ganga brúnaþungir inn í jólamánuðinn ef marka má væntingavísitöluna.  Væntingar til framtíðar og nútíðar hafa dregist saman hjá neytendum þriðja mánuðinn í röð og hefur áhugi þeirra á stórkaupum eins og bílakaupum dregist saman.

Samhliða væntingavísitölunni var stórkaupavísitala Capacent Gallup einnig birt og samkvæmt henni hefur áhuginn á stórkaupum dregist saman nú í desember frá síðustu mælingu af þessu tagi, sem var í september síðastliðnum. Vísitalan er nú 47,3 stig og lækkar um 8 stig frá því í september, og þegar miðað er við sama tíma í fyrra er vísitalan 2,3 stigum lægri.

Til stórkaupa teljast kaup á bifreiðum, húsnæði og utanlandsferðum. Vísitalan fyrir fyrirhuguð bifreiðakaup lækkar um 0,8 stig frá því í september en 80% aðspurðra telja það mjög eða frekar ólíklegt að þau muni kaupa sér bíl á næstu sex mánuðum.

Vísitalan fyrir íbúðakaup hækkar reyndar lítillega frá því í september eða um 0,1% en tæplega 92% aðspurðra telja það mjög eða frekar ólíklegt að þau ráðist í íbúðakaup næsta hálfa árið.

mbl.is

Bloggað um fréttina