Nýi Rollsinn enn í skugga

Nýja myndin af Wraith.
Nýja myndin af Wraith. Rolls Royce

Rolls Royce hefur nú látið frá sér aðra mynd af Wraith, sem á að frumsýna eftir tæpan mánuð. Fyrir nokkrum vikum sýndum við ykkur fyrstu myndina af bílnum, sem á að verða kraftmesti Rolls Royce til þessa, og giskuðum þá á að eitthvað væri lítið til af lömpum í verksmiðjunni.

Ástandið virðist ekki hafa batnað mikið í þeirri deildinni, eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Þó vilja kollegar okkar hjá autoblog.com meina að myndin gefi til kynna að afturendinn verði svipaður, eða jafnvel eins, og á Ghost. 

Wraith mun, samkvæmt framleiðanda, bera með sér þann lúxus og þægindi sem ætlast má til af Rolls Royce, en á sama tíma mun hann einkennast af afli, stíl og dramatík. Eins og við er að búast hljómar það aðeins betur á upprunalega tungumálinu.

Mikil leynd hefur hvílt yfir mótornum sem fer í bílinn, líkt og öðru sem honum tengist. Í fréttatilkynningu frá Rolls Royce kemur fram að áður fyrr hafi Rolls Royce aðeins gefið eitt út um hestaflafjölda í bílum sínum: „Nóg.“ Um aflið í Wraith megi hinsvegar segja að það sé „meira en nóg.“

Þá vitum við það.

Smelltu á þennan hlekk til að sjá stiklu Rolls Royce fyrir Wraith.

Rolls Royce Ghost. Afturendinn er talinn fyrirmynd af afturenda Wraith.
Rolls Royce Ghost. Afturendinn er talinn fyrirmynd af afturenda Wraith. Rolls Royce
mbl.is