Rolls Royce hyggur á V-16 blæjubíl

Rolls Royce varð ekki frægt fyrir að fara einhvern meðalveg, eða hafa áhyggjur af því að bílarnir þeirra væru sparneytnir og skynsamlegir.

Það er því vel við hæfi að fyrirtækið sé nú með blæjubíl í undirbúningi sem á að vera knúinn V-16 mótor. Líklega er um 9 lítra mótorinn úr 100EX hugmyndabílnum að ræða, en sá var sýndur árið 2004 og verður að teljast líklegur grunnur að nýja bílnum (myndasafnið með fréttinni er af honum), þó svo að hann verði að öllum líkindum tveggja sæta.

Sú vél skilar í það allra minnsta 700 hestöflum, samkvæmt frétt Car Magazine, og verkfræðingar hjá Rolls Royce eru víst dálítið súrir yfir þeim „mistökum“ að hún sé ekki farin í framleiðslu nú þegar. 

Til dæmis hefði verið kjörið að setja hana í nýjasta Phantom bílinn, en hann er aflminni en Ghost, þó að hann sé dýrari.

Phantom leggur nýja bílnum reyndar til undirvagn, því hann verður byggður á 2016 árgerðinni af Phantom, með einhverjum breytingum þó.

Það verður þó einhver bið á gripnum, því ekki er von á honum fyrr en í fyrsta lagi 2017 og rétt er að taka fram að hér er önnur og stærri skepna á ferðinni en Wraith, sem kynntur verður í næsta mánuði.

mbl.is
Loka