Hyundai gegn uppvakningum

Tilbúinn í slaginn. Nú er bara að bíða ...
Tilbúinn í slaginn. Nú er bara að bíða ...

Einhverra hluta vegna eru margir uppteknir af uppvakningum og þeim heimsendi sem hnattlægur uppvakningafaraldur hefði í för með sér.

Ef til slíks kæmi, hverjar svo sem líkurnar eru á nú á því, er auðvitað aðalatriðið að vera á rétta bílnum. Hyundai er eina bílafyrirtækið sem við vitum um sem hefur brugðist við þessari brýnu þörf, með sérútgáfu af Hyundai Elantra, sem er sérstaklega útbúinn til uppvakningaveiða og flótta.

Bíllinn var hannaður í samstarfi við Robert Kirkman, höfund uppvakningasagnanna The Walking Dead, í tilefni af 100. hefti sagna hans. Það var breytingafyrirtækið Design Craft Fabrication sem sá um breytingarnar.

Staðalbúnaður í uppvakninga-Elöntrunni er meðal annars vel tenntur plógur, hlífðarrimlar fyrir rúður, dráttarspil, ríflegur skammtur af aukaljósum, og sjúkrapúði. Honum fylgja svo hafnaboltakylfa og samúræjasverð, fyrir átök í návígi. En ekki hvað?

Og að sjálfsögðu er hann matt-grár. Því ... af því bara.

Myndbandið hér að neðan er frá því að bíllinn var frumsýndur á síðasta ári, en þar fyrir neðan er kennslumyndband fyrir þá sem vilja útbúa sinn eigin uppvakninga-heimsendabíl.

Ef eitthvert ykkar ræðst í slíkt verkefni heimtum við myndir og frásögn á bill@mbl.is!

mbl.is

Bloggað um fréttina