Sagan um Wraith: Verði ljós

Loksins, loksins, eftir mikla bið hefur Rolls Royce sent frá sér myndir af nýja Rolls Royce Wraith sem hafa verið teknar með ljósin kveikt.

Við höfum sýnt ykkur „tísera“ síðustu vikur, en nú sjáum við loksins bílinn í allri sinni dýrð. Bíllinn er styttri, breiðari og lægri en Ghost, sem hann er byggður á, og mótorinn er sá kraftmesti frá Rolls Royce til þessa - 624 hestafla V12. Enda fer bíllinn frá kyrrstöðu upp í 60 mílur (þetta er nú breskur bíll) á aðeins 4,4 sekúndum. 

Innréttingin er sérstaklega vönduð, eins og von er, og klæðningin í toppnum er alsett litlum ljósum sem minna á stjörnuhimin.

Samkvæmt Autocar.co.uk kemur Wraith til með að kosta um 40 milljónir króna ytra. Wraith er sagður bíll fyrir auðjöfra sem vilja gera allt sjálfir, enda er ekki mjög þjált að vera með bílstjóra á tvennra dyra bíl.

Þá er loksins búið að svipta hulunni formlega af þessum kraftmesta Rolls Royce til þessa, og við getum andað léttar. Ef þú hefur orðið fyrir dálitlum vonbrigðum við að skoða meðfylgjandi myndir getur verið að nýi Rollsinn með V-16 mótor sé meira fyrir þig?

mbl.is