Eigendum Ferrari og Volvo leiðist að keyra

Samkvæmt könnuninni eru 43% eigenda Ferrari allt annað en kátir …
Samkvæmt könnuninni eru 43% eigenda Ferrari allt annað en kátir undir stýri.

Þar sem það er draumur margra að eignast Ferrari bíl mætti halda sem svo að þeir sem eiga slíka gæðinga væru alsælir undir stýri. En samkvæmt nýrri breskri rannsókn er það ekki tilfellið.

Könnunin var framkvæmd af AXA tryggingafyrirtækinu og náði til 2.000 bílstjóra í Bretlandi. Spurt var um nokkra þætti sem tengjast ánægju við akstur og sögðust 69% þátttakenda almennt hafa ánægju af akstri en 20% sögðust keyra bíl af illri nauðsyn.

Þegar svörin voru borin saman við bílaeign þátttakenda kom í ljós að BMW eigendum þykir skemmtilegast að keyra af öllum bíleigendum, en 82% þeirra sögðust hafa gaman af akstri.

Þar á eftir komu Aston Martin og Lexus eigendur, en 78% þeirra njóta þess að keyra. Þar á eftir eru Seat (76%) og Peugeot (75%)

Það sem kom hins vegar einna mest á óvart við niðurstöður könnunarinnar er að aðeins 57% Ferrari eigenda hafa gaman af akstri, sem hlýtur að vekja upp spurningar um hin 43 prósentin, og til hvers þau keyptu Ferrari.

Meira að segja Land Rover eigendur voru kátari, en 59% þeirra líta á akstur sem ánægjulega upplifun. Eigendur Mini (sem BMW framleiðir) eru hins vegar enn jákvæðari, eða að minnsta kosti 73% þeirra.

Einhverra hluta vegna eru Volvo eigendur dálítið fráhverfir akstri, en aðeins 46% þeirra njóta sín við þá iðju.

mbl.is

Bloggað um fréttina