Bíll flaug á hús

Ökumaður á þrítugsaldri missti stjórn á bifreið sinni í nótt með þeim afleiðingum að bíllinn tókst á loft og endaði á húsvegg, rúman metra frá jörðu.

Atvikið átti sér stað í bænum Lowestoft í Suffolksýslu á Englandi. Ökumaðurinn, sem hlaut alvarlega höfuðáverka við slysið, missti stjórn á Audi TT sportbíl sem keyrði á gangstéttarbrún og flaug í gegnum limgerði. Bíllinn lenti á húsvegg á einbýlishúsi, eftir að hafa millilent á tveimur bílum í innkeyrslu hússins, og festist þar.

Götunni var lokað á meðan ökumanninum var komið til bjargar og gengið var úr skugga um hvort gasleki væri í húsinu eftir slysið.

Eftir því sem segir í frétt The Telegraph verður slysið rannsakað í dag en ekki liggur fyrir hvað olli því.

mbl.is

Bloggað um fréttina