Vilja nútímavæddari umferðaröryggisþætti

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja nútímavæða þætti sem snúa að umferðaröryggi innan …
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja nútímavæða þætti sem snúa að umferðaröryggi innan borgarmarkanna, svo sem hraðamyndavélar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Á undanförnum árum hefur borgin fyrst og fremst stýrt umferðarhraða með því að fjölga hraðahindrunum. Í það verkefni fara 120 milljónir á ári. Við teljum árangursríkara að nýta fleiri kosti og þá ekki síst að ná árangri með jákvæðum skilaboðum til ökumanna. Á undanförnum árum hafa margar borgir nýtt sér nýjar leiðir sem hafa gefist vel,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu í morgun fram tillögu í borgarráði um að borgin hefji þegar viðræður við innanríkisráðuneytið um sameiginlegt átak ríkis og borgar í þeim tilgangi að endurnýja úr sér gengnar hraðamyndavélar og nota þá tækni sem þróuð hefur verið til að koma skilaboðum til ökumanna.

Tilgangurinn sé að auka umferðaröryggi, draga úr mengunaráhrifum umferðar, fækka hraðahindrunum og stýra umferð með leiðbeinandi skilaboðum þannig að síður myndist umferðarhnútar.

Í greinargerð með tillögunni segir að undanfarin fimm ári hafi engar hraðamyndavélar verið í notkun í Reykjavík. Gamlar myndavélar hafi ekki hlotið viðhaldi enda hafi reynst erfitt að fá varahluti í svo úreltar vélar.

Þá segir að í ár verði 120 milljónum varið í að bæta umferðaröryggi með hraðahindrunum og götuþrengingum en með því að nýta nútímalegri aðferðir og tækni megi auka umferðaröryggi meira en áður og fyrir lægri upphæðir.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is