Fleiri umferðarslys en færri slasaðir

mbl.is/Eggert

Samkvæmt bráðabirgðatölum lögreglu hafa 92 umferðarslys orðið á höfuðborgarsvæðinu fyrstu þrjá mánuði ársins. Slasaðir eru 124. Á sama tíma í fyrra urðu 82 slys þar sem slasaðir voru 136. Því er um 11% fjölgun slysa að ræða milli ára en 9% fækkun slasaðra.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir að orsök slysanna fyrstu þrjá mánuði ársins megi í langflestum tilfellum rekja til hegðunar ökumanna. Akstur sé þá ekki í samræmi við aðstæður, ekið of hratt eða ógætilega. Þá séu gangandi og hjólandi vegfarendur taldir eiga sök, eða hluta sakar, í tveimur tilfellum.

Þá kemur fram, að flest slysin, eða 28, hafi orðið vegna útafaksturs þar sem ökutæki valt eða var ekið á staur. Næstflest þeirra mátti rekja til of stutts bils milli bifreiða, eða 15 talsins. Samanlagt urðu því rétt tæplega helmingur allra slysa vegna útafaksturs eða aftanákeyrslu. 

Í 15 tilvikum hafi mátt að hluta til rekja orsök slysa til hálku, þar af 12 í tengslum við útafakstur. Níu slys voru rakin til ölvunar ökumanns og þrjú til þess að ökumaður sofnaði við akstur. Eitt slys var rakið til farsímanotkunar ökumanns.

„Sé tekið mið af tölum Umferðarstofu um hlutfall þeirra sem valda slysi og slasast sjálfir, má gera ráð fyrir að 44 ökumenn hafi orðið fyrir meiðslum í 92 slysum. Aðrir vegfarendur, þeir er ekki áttu sök á slysum en urðu fyrir meiðslum vegna aksturshegðunar annarra, eru því 80 talsins,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina