Áfram góður kostur í sínum flokki

Á mölinni sýndi Grand Vitara alla sína bestu kosti enda …
Á mölinni sýndi Grand Vitara alla sína bestu kosti enda bíll sem hentar mjög vel íslenskum aðstæðum. mbl.is/Njáll Gunnlaugsson.

Suzuki Grand Vitara fékk fyrir módelárið 2013 lítilsháttar andlitslyftingu og aukningu á búnaði en Morgunblaðinu hafði ekki gefist kostur á að reynsluaka bílnum fyrr en nú.

Vitara jeppinn hefur selst vel í gegnum tíðina hér á landi enda alvöru jeppi á grind með hátt og lágt drif, en á verði ódýrari jepplings. Meðal þess búnaðar sem kominn er í bílinn er upplýsingaskjár með Garmin leiðsögukerfi og blátannarbúnaði fyrir farsíma. Útlitsbreytingin er lítilsháttar, hvassari grill og stuðari ásamt nýjum framljósum.

Aðgengilegur í sæti og rúmgóður

Það er óhætt að segja að Grand Vitara er rúmgóður bíll fyrir farþega sína og endurhönnuð sætin eru þægilega stór. Fótapláss er gott, einnig í aftursætum og þótt framsæti sé sett í öftustu stöðu er enn sæmilegasta pláss fyrir fætur. Hliðardyr opnast vel og gera innstig mjög þægilegt. Hjólaskálar stela samt aðeins af plássinu afturí og verða þess valdandi að barnabílstólar verða heldur innarlega svo lítið pláss verður eftir fyrir miðjufarþegann.

Búnaðarlistinn er á pari við nokkuð vel búna bíla í sama flokki en spurning hvort það sama megi segja um búnaðinn sjálfan. Til að mynda er Garmin leiðsögukerfið heldur gamaldags miðað við það gengur og gerist í nýjustu kynslóðum leiðsögukerfa, en dugar þó vel hérlendis enn sem komið er. Farangursrými er þokkalegt, mætti reyndar vera aðeins dýpra en stór og fyrirferðarmikill afturhlerinn opnast út á hlið sem gerir hleðslu í þröngum stæðum erfiðari.

Þýður á möl en eyðslufrekur

Það er þó helst þegar farið er að aka Grand Vitara að ljós hans fer að skína. Hann er í senn léttur og nákvæmur í stýri og nokkuð snar í snúningum. Hann tekur vel við sér enda aflið þokkalegt, tæp 170 hestöfl. Hann virkar ekki eins stífur og ætla mætti af grindarbíl og þegar hann er kominn út á mölina er hann áberandi þýður. Við reyndum hann bæði á malarvegi og slóða og gilti það einu, hann át upp ójöfnur eins og svifnökkvi og gerði það meira að segja hljóðlega. Fjórhjóladrifið er sídrif og hægt að skipta í læst drif á ferð, en stoppa þarf bílinn til að setja í lága drifið sem er helmingi lægra og eflaust mikill kostur í þungri vetrarfærð.

Sídrifið og sú staðreynd að sjálfskiptingin er aðeins fjögurra þrepa hefur þó sín áhrif á eyðsluna. Það sést vel innanbæjar þegar aksturstölvan sýndi eyðslu á við góða V6 vél en það lagaðist mikið á langkeyrslunni. Fór eyðsla samkvæmt aksturstölvu þá niður í rúma 10 lítra sem er nokkuð nálægt því sem uppgefin meðaleyðsla bílsins er. Ef bíllinn fengi nýja sex til sjö þrepa sjálfskiptingu myndi eyðsla hans minnka til muna sem og mengunargildi sem er frekar hátt, 221 g/km er hátt miðað við nýjustu bílana í flokknum.

Verðið helst gott

Suzuki Grand Vitara keppir við jepplinga eins og Toyota RAV4 og Honda CR-V þrátt fyrir að vera mun meiri jeppi en þeir, en þar er það stærðin sem hefur mest áhrif.

Margir keppinautar í þeim flokki kosta meira en Suzuki jeppinn sem byrjar í aðeins 5.590.000 kr, þótt sumir séu líka undir honum í verði eins og Honda CR-V og Kia Sportage. Í Luxury útfærslu eins og við reyndum hann sem inniheldur meðal annars leðursæti og bakkskynjara er hann á 6.390.000 kr sem er einnig nokkuð gott verð í samanburðinum.

Það er líka athyglisvert þegar hátt mengunargildi hans er haft í huga að verðið haldist svona gott. Þegar á heildina er litið er Grand Vitara áfram góður kostur með meiri búnaði þótt uppfæra mætti nokkra hluti. Vonandi dugar það honum fram að næstu kynslóð sem vænta má 2015.

njall@mbl.is

Framendi bílins er nýr eins og sjá má af hvassari …
Framendi bílins er nýr eins og sjá má af hvassari grilli og endurhönnuðum stuðara og framljósum.
Vélin er nokkuð snörp með sín 170 hestöfl en mætti …
Vélin er nokkuð snörp með sín 170 hestöfl en mætti menga aðeins minna.
Afturhleri opnast á hlið sem tekur pláss og gerir hlerann …
Afturhleri opnast á hlið sem tekur pláss og gerir hlerann þyngri í vöfum.
Þótt framsæti sé í öftustu stöðu er pláss fyrir fætur.
Þótt framsæti sé í öftustu stöðu er pláss fyrir fætur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina