15 ára aldurstakmark á rafvespum

Rafhjól og vespur munu flokkast sem létt bifhjól samkvæmt frumvarpi til nýrra umferðarlaga og verða sem slík skráningarskyld og tryggingarskyld en undanþegin skoðunarskyldu. Þá munu ökumenn þurfa að hafa ökuleyfi sem þýðir að þeir verða að hafa náð 15 ára aldri til að aka slíkum hjólum.

Auk þess að mega aka hjólunum á hjólreiða- og göngustígum verður þeim leyfilegt að ferðast á umferðagötum þar sem hámarkshraði er minni en 50 km/klst. 

Rafhjól og léttar rafvespur hafa verið mikið í umræðunni á undanförnum árum þar sem skýr reglugerð hefur ekki náð utan um notkun þeirra og það er ljóst að notkun þeirra mun þurfa að breytast töluvert í mörgum tilfellum til að farið verði eftir þessum nýju reglum verði þær samþykktar.

Þess ber þó að geta að mikilvægir aðilar á borð við lögregluna eiga eftir að veita frumvarpinu umsögn.

mbl.is

Bloggað um fréttina