VW segist komið fram úr General Motors

Dansarar æfa og sýna kúnstir sínar á óvenjulegum stað; bílsmiðju …
Dansarar æfa og sýna kúnstir sínar á óvenjulegum stað; bílsmiðju Volkswagen í Dresden í Þýskalandi. mbl.is/afp

Volkswagen (VW) tilkynnti í dag að það hefði tekið fram úr General Motors að bílasölu á síðastliðnu ári og væri þar með annar stærsti bílsmiður heims. Markmið VW er að komast einnig upp fyrir Toyota í fyllingu tímans.

Volkswagen-bílasamsteypan kveðst hafa selt 9,73 milljónir fólks- og vörubíla árið 2013, samanborið við 9,71 milljón seldra bíla GM.

Inni í tölum VW eru stórir flutningabílar frá MAN og Scania en trukkar munu ekki vera inni í tölum General Motors, heldur aðeins fólksbílar og léttir atvinnubílar. Þar með má búast við að þráttað verði um hver sé raunverulega næststærsti bílsmiðurinn, GM eða VW.

Fyrr í janúar birti Toyota árangur ársins 2013, en þá seldi fyrirtækið 9,98 milljónir bíla og er því stærsti bílsmiður heims. Þann titil bar General Motors á árunum 1931 til 2007. Japanska fyrirtækið hrifsaði hann til sín 2008 til 2010 en vegna náttúruhamfara í Asíu missti Toyota titilinn aftur í hendur GM 2011. Það tak bandaríska risans var þó fremur laust því Toyota tók á ný toppsætið í bílasölu árið 2012.

Volkswagen hefur opinberlega lýst því yfir að markmið fyrirtækisins sé að verða stærsti bílsmiður heims í síðasta lagi árið 2018. Meðal annars hefur VW samið framsæknar söluáætlanir fyrir bandaríska bílmarkaðinn. Þar á fyrirtækið erfitt uppdráttar um þessar mundir því bílasala VW vestra dróst saman um 7% í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina