Upprunalegi fjölnotabíllinn innblásinn af brimbrettalífsstíl

Þú þarft að vera frekar vel að þér í bílaheiminum til að hafa heyrt talað um Brubaker Box, fyrsta fjölnotabílinn (minivan). Upphaflega var hann ætlaður sem viðbót í brimbrettalífsstílinn í Suður-Kaliforníu en þrátt fyrir að eiga allnokkra aðdáendur, enn þann dag í dag, náði framleiðsla bílsins sér aldrei á flug.

Hægt var að kaupa bílinn ósamsettan, eða tilbúinn til aksturs. Yfirbyggingin var úr tvöföldu trefjaplasti og undirvagninn var úr VW rúgbrauði (Transporter) þó að einstaka heimildir geti á um að undirvagninn úr Bjöllu hafi verið notaður.

Volkswagen neitaði hins vegar að selja undirvagnana staka til Brubaker og því varð að kaupa rúgbrauðin í heilu lagi og selja allt nema undirvagninn og vélina í varahluti, áður en Brubaker yfirbyggingin var boltuð ofan á.

Þetta óhagstæða fyrirkomulag á sinn þátt í að aðeins voru framleidd 53 eintök, þrjú af Curtis Brubaker sjálfum, og fimmtíu í viðbót af fyrirtækinu Automecca, sem keypti trefjaplastmótin af Brubaker.

Styttri og lægri en Bjalla

Boxið var ekki stór bíll, í það heila var hann ögn lægri og styttri en Bjalla þess tíma, en um 20 cm breiðari, og það var aðalatriðið. Á bílnum var aðeins ein hurð, og hún var á sleðum. Rennihurðir áttu síðar eftir að vera eins konar vörumerki fjölnotabíla, en þegar Boxið var frumsýnt, árið 1972, var slíkt fyrirkomulag nánast óþekkt á fólksbílum.

Önnur sérkenni bílsins voru snubbóttur framendi, með stálstuðara sem klæddur var viðarlíki (samskonar stuðari var aftan á bílnum). Varadekkið var líka geymt frammi í bílnum, til varnar farþegum í árekstri, hvort sem það nú virkaði eða ekki.

Framrúðan var svo langt fyrir framan ökumanninn að lítið barn hefði hæglega getað lagt sig á mælaborðinu (sem þótti allt í lagi á áttunda áratugnum), ef það hefði verið eitthvað mælaborð að tala um.

Eldsneytistankurinn var svo fyrir aftan bílstjórasætið (en hægt var að koma honum fyrir annars staðar) og var notaður sem eins konar tunga við tveggja manna sófann sem var aftur í, yfir loftkælda VW mótornum.

Einstaka eintak enn á kreiki

Árið 1979 er talið að síðasta Boxið hafi verið smíðað, og mótin hafa farið á töluvert flakk eftir það. Einstaka sinnum koma upp hugmyndir um að framleiða svokölluð „kitt“, til að fólk geti smíðað sér Box á VW undirvagna, en ekki er vitað til þess að neitt hafi orðið af slíku.

Svo virðist sem aðeins sé vitað um örfáa bíla, í misgóðu ástandi, sem enn eru í notkun. Einn þeirra er í eigu plötusnúðsins DJ Greyboy (Andreas Stevens) sem keypti Box í niðurníðslu og færði til upprunalegrar myndar. eGarage hefur gert myndband um Greyboy og bílinn hans, sem finna má hér að neðan.

Blaðagreinar um Brubaker Box.  

Upprunalegur verðlisti Brubaker Box.

mbl.is

Bloggað um fréttina