Koenigsegg spyrnir við Ford Focus

Koenigsegg Agera R
Koenigsegg Agera R

Hversu kraftmikill er Koenigsegg  Agera R ofursportbíllinn? Til dæmis í samanburði við vinsælan fólksbíl? 

Hraðafíklarnir hjá Superspeeders.com ákváðu að etja saman fyrrnefndum Koenigsegg og dísilknúnum Ford Focus bílaleigubíl.

Til að setja þetta í samhengi skulum við bera saman nokkrar tölur.

Hestöfl: 115 í Fordinum, 1.140 í Agera R. Það munar semsagt rúmlega þúsund hestum.

Hámarkshraði: Ford Focus: 196 km/klst. Koenigsegg Agera R: 440 km/klst. Rúmlega helmingsmunur.

Hröðun, 0-100 km/klst: Ford Focus: 11,1 sekúnda. Agera R: 2,9 sekúndur.

Verð: Ford Focus (í Brimborg): Frá 4.340.000 kr. Koenigsegg (áætlun fyrir Bandaríkjamarkað): um 170 - 280 milljónir króna, eftir útfærslu.+

Af þessu má sjá að spyrna milli þessara tveggja bíla er auðvitað kjánalegur, eins og að bera saman íbúðargám og þakíbúð í Skuggahverfinu.

Til að jafna leikana aðeins fékk Focusinn hálfrar mílu forskot í mílulangri keppni. Eða á íslensku: 800 metra forskot í 1,6 km keppni.

Þó að endanlegir tímar liggi ekki fyrir sýnir myndbandið hér fyrir neðan á hvaða hraða Ageran var þegar hún tók fram úr Focusnum (sagði það sig ekki sjálft að næstum tífaldur munur í vélarafli dygði til að vinna upp forskotið og gott betur?). 

Tilgangurinn var auðvitað ekki að athuga hvor bíllinn ynni, heldur að sýna hversu fáránlega aflmikill og hraðskreiður Koenigsegg-bíllinn er í samanburði við venjulegan fólksbíl. Og þetta gefur ágæta mynd af því.

Myndbandið er brot úr lengra myndbandi, sem hægt verður að panta fljótlega í vefverslun Superspeeders (Myndskeiðið er úr mynd nr. 7).

mbl.is