Clarkson fær lokaviðvörun

Jeremy Clarkson.
Jeremy Clarkson. Reuters

Jeremy Clarkson, umsjónarmaður bílaþáttarins vinsæla Top Gear, segir að stjórnendur breska ríkisútvarpsins (BBC) muni reka hann úr starfi ef hann viðhefur einhvern tímann aftur móðgandi ummæli.

Stjórnendurnir hafa nú gefið honum eina lokaviðvörun.

Hann er sakaður um að hafa notað niðrandi orð um blökkumenn við tökur á þáttaröð sinni fyrir tveimur árum. Nýverið var birt myndskeið á netinu þar sem svo virðist sem Clarkson noti orðið „negri“ (e. nigger) þegar hann fór með vögguvísu. Myndbrotið var aldrei notað í þættinum.

Í pistli í dagblaðinu The Sun segir Clarkson að stjórnendur BBC hafi nú sett honum afarkosti. Þeir hafi einnig beðið hann um að biðjast afsökunar á ummælum sínum, en það hyggst Clarkson ekki gera, enda þvertekur hann fyrir það að hafa notað orðið.

Cl­ark­son var að fara með vís­una Ugla sat á kvisti (Eeny, Meeny, Miny Moe) og seg­ist hafa tautað orðið „kenn­ari“ (e. teacher) í stað hins niðrandi orðs sem oft var notað í vís­unni í gamla daga.

Harriet Harman, einn af leiðtogum breska Verkamannaflokksins, hefur hvatt BBC til að reka Clarkson umsvifalaust úr starfi. Hún sagði á Twittersíðu sinni að þeir sem notuðu „n-orðið“, hvort sem það væri á opinberum vettvangi eða ekki, ættu ekki heima hjá breska ríkisútvarpinu.

Michael Gove, menntamálaráðherra Bretlands, hefur hins vegar hvatt BBC til að sparka Clarkson ekki úr starfi vegna þess hve afsökunarbeiðni hans hafi verið skýr. Talsmaður forsætisráðherra hefur tekið í sama streng, að því er segir í frétt Independent um málið.

Talið er að Clarkson hafi fengið um fjórtan milljónir breskra punda, jafnvirði um 2,6 milljarða króna, í laun á seinasta ári, en þátturinn hans hefur notið mikillar velgengni víða um heim, þar á meðal hér á landi.

Frétt mbl.is: Hvað sagði Clarkson?

mbl.is

Bloggað um fréttina