Bifhjól sjást verr en bílar

Samgöngustofa segir mikilvægt að hafa í huga í umferðinni, að bifhjól sjást ekki eins vel og bíll.

„Þau eru minni, það er erfiðara að gera sér grein fyrir hraða þeirra og þau sýnast oft fjær en raun ber vitni. Bílstjórar þurfa að gá, helst tvisvar, áður en ekið er af stað á gatnamótum,“ segir á vefsetri stofnunarinnar.

Lögð er áhersla á mikilvægi þess að bílstjórar gefi ætíð stefnuljós þegar skipt er um akrein. Það þurfi að gera tímalega og einnig þótt ekkert annað farartæki sjáist í nágrenninu.

„Bifhjól getur verið við hlið bílsins eða rétt fyrir aftan hann og því töluverðar líkur á að ökumaður sjái hjólið ekki í hliðarspeglinum,“ segir Samgöngustofa.

mbl.is

Bloggað um fréttina