Sameinast um nýjan Mini

Nýi Mini Minor myndi svipa Rocketman hugmyndabílnum til.
Nýi Mini Minor myndi svipa Rocketman hugmyndabílnum til.

Allt stefnir í að BMW og Toyota muni í sameiningu hanna og smíða nýjan Mini sem yrði ódýrasti bíllinn í Mini-fjölskyldunni og kæmi hugsanlega líka sem rafbíll síðar meir.

Bíl þennan kallar þýska bílaritið Autobild Mini Minor. Það segir hann verða byggðan á sömu hugmyndafræði og Rocketman hugmyndabíllinn sem sá dagsins ljós á Genfarsýningunni árið 2011.

Verði af þessu samstarfi þá myndi Toyota tefla fram eigin afbrigði af bílnum sem hugsanlega fengi tegundarheiti fyrrum smábílsins Starlet. Yrðu bílar BMW og Toyota eins að öllu leyti nema yfirbyggingin.

Blaðið segir viðræður um þetta samstarf í gangi en talsmaður Mini hefur brugðist við fréttinni með því að segja að hér sé um bollalengingar að ræða. 

Verði af smíði Minor yrði hann 3,45 metra langur eða 3,7 sentímetrum styttri en þriggja dyra hlaðbakurinn Rocketman. Segir Autobild að hann muni vart birtast á götunni fyrr en 2018 eða 2019 með hefðbundna aflrás og enn síðar sem rafbíll.

mbl.is

Bloggað um fréttina