Óánægja með breytingar

Ekki ríkir sátt um breytingar á umferðarlögum um bensínvespur.
Ekki ríkir sátt um breytingar á umferðarlögum um bensínvespur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Talsverður urgur er meðal margra er koma að umferðarmálum vegna breytinga á frumvarpi til umferðarlaga í meðferð samgöngunefndar alþingis.

Í drögum að því frumvarpi var lagt til að svokallaðar rafmagnsvespur í flokki 1, en til þessa flokks ná einnig bensínvespur með 25 km hámarkshraða, yrðu skráðar og þá einnig tryggðar.

Samgöngunefnd breytti þessu í áliti sínu og felldi niður þörf á skráningu og tryggingum, sem og þörf á að sá sem að slíkt ökutæki notar þurfi á einhvern hátt að sækja um ökuréttindi líkt og tíðkast víða í löndum Evrópu. Samgöngunefnd setti lágmarksaldur við slík ökutæki við 13 ár sem er lægra en flestir hagsmunaaðilar mæltu með í þessu sambandi.

Sigurður Jónasson, ökukennari og lögreglumaður hefur sterkar skoðanir á útkomu laganna eftir meðför þeirra í Samgöngunefnd. „Ég er afar hugsi yfir því að ósakhæfum börnum skuli heimilt að aka vélknunum ökutækjum hvar sem er. Að þetta hafi svo runnið gegnum þingið án umræðu ber vott um áhugaleysi þingmanna á umferðaröryggismálum,“ sagði Sigurður í viðtali við Morgunblaðið. Heimildarmaður innan stjórnsýslunnar sem ekki vildi láta nafns síns getið sagði að þetta hefði valdið bæði furðu og miklum vonbrigðum meðal sérfræðinga og fólks sem vinnur að umferðaröryggismálum hér á landi. „Upprunaleg drög frumvarpsins byggðust á ítarlegri og vandaðri vinnu sem eins og sjá má er varla virt viðlits með illa ígrundaðri og illa rökstuddri pólitískri niðurstöðu, niðurstöðu sem er að segja má þvert á það sem lagt var upp með,“ sagði heimildarmaðurinn. njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina