Leikarinn sem virðist ekki geta hætt að kaupa bíla

Rolls-Royce Silver Cloud III er bíll sem fer ekki í …
Rolls-Royce Silver Cloud III er bíll sem fer ekki í felur á götum úti.

Í síðustu viku sagði Bílablaðið frá hófstilltu bílasafni Jackie Chan, sem lætur sér nægja að spana um á Mitsubishi og þykir ekki mikið í það varið að sanka að sér dýrum bílum og öðru glingri.

Ef Jackie Chan er svart þá er Nicolas Cage hvítt. Raunar er leitun að Hollywoodstjörnu sem þykir jafngaman að bruðla með peninga og hefur innkaupagleðin komið Cage í koll oftar en einu sinni.

Eyðir og eyðir

Cage lætur sér ekki duga að kaupa sportbíla í tugavís, heldur hefur hann líka fjárfest í köstulum (í fleirtölu) og snekkjum (einnig í fleirtölu). Þegar kom að því að fylla bílskúrinn dugði ekkert minna en að eignast níu Rolls Royce-drossíur. Bloomberg segir að á einu eyðslufylleríinu hafi Cage meira að segja keypt sér hvorki fleiri né færri en þrjátíu mótorhjól.

Sumir vilja meina að þarna sé komin skýringin á því hvað Cage á erfitt með að segja nei við lélegum kvikmyndahlutverkum. Eyðslusemin hefur sett hann í erfiða stöðu fjárhagslega og ekki hjálpaði til þegar hann fékk fyrir nokkrum árum reikning að upphæð 6 milljónir dala vegna ógreiddra skatta. Þegar allt var komið í klessu höfðaði Cage, eins og vera ber í Hollywood, mál gegn endurskoðandanum sínum.

Cage má eiga það að þó hann hafi slæman smekk fyrir kvikmyndahandritum þá hefur hann ágætan smekk fyrir bílum. Hann virðist velja bíla sem eru í takt við leikstílinn hans: öfgakenndir og ýktir og um leið ómótstæðilegir.

Karlinn er þannig veikur fyrir Ferrari-sportbílum og sést oft á ferðinni í Ferrari Enzo. Allt þar til LaFerrari kom á markað árið 2013 var Ferrari Enzo dýrasti og öflugasti bíllinn í Ferrari-línunni. Enzo er hreint mergjaður sportbíll, með 6 lítra V12-vél sem skilar um 651 hestafli. Var bíllinn aðeins smíðaður í 400 eintökum á árunum 2002 til 2009.

Konunglegur Lamborghini

Talandi um ítalska fáka þá keypti Cage á sínum tíma Lamborghini Miura SVJ árgerð 1971. Bílinn eignaðist hann á uppboði árið 1997, um svipað leyti og frægðarstjarna hans reis hvað hæst með kvikmyndunum Face/Off og Con Air. Kaupverðið var 450.000 dalir en bíllinn hafði aðeins átt einn fyrri eiganda, sjálfan Mohammad Reza Pahlavi shah af Íran. Cage seldi bílinn árið 2002 svo einhvers staðar þarna úti er einstakur Lamborghini með mjög sérstaka eigendasögu.

Cage hefur átt fjölda annarra klassískra bíla. Eitt af djásnunum í safninu er Ferrari 250 GT árgerð 1959. Var sá bíll aðeins framleiddur í 51 eintaki og á Cage bíl númer 34. Kvikmyndaáhugamönnum ætti að þykja nafnið á bílnum kunnuglegt en eftirlíking af Ferrari 250 GT var notuð í kvikmyndinni Ferris Bueller‘s Day Off. Þegar Cage vill hvíla þessa gersemi þá á hann líka til Ferrari 250 GT Pininfarina árgerð 1958 til að spana á og Lamborghini 350 GT árgerð 1965.

Gamaldags lúxus

Af öðrum bílum sem Cage hefur átt í lengri eða skemmri tíma má nefna Rolls-Royce Silver Cloud III árgerð 1964. Var bílinn á sínum tíma, og er enn, hið mesta stöðutákn og gefur nærstöddum til kynna að þar fari sterkefnaður einstaklingur sem sættir sig ekki við neitt minna en algjöran lúxus.

Svipaða sögu má segja um Bugatti T57C Atalante Coupe árgerð 1938. Þessi drossía er tveggja sæta og einstaklega fallegt ökutæki en bílar af þessari gerð seljast hæglega fyrir hálfa milljón dala á uppboðum.

ai@mbl.is

Cage keypti á uppboði Lamborghini Miura svipaðan þeim sem er …
Cage keypti á uppboði Lamborghini Miura svipaðan þeim sem er hér á myndinni, nema hvað sá bíll hafði áður verið í eigu shahsins af Íran.
Nicholas Cage sem söguhetja kvikmyndarinnar Ghost Rider. Þar ók hann …
Nicholas Cage sem söguhetja kvikmyndarinnar Ghost Rider. Þar ók hann um á forláta Yamaha V-Max mótorhjóli.
Ferrari Enzo var aðeins framleiddur í 400 eintökum.
Ferrari Enzo var aðeins framleiddur í 400 eintökum.
Bugatti 57 þykir einn fegursti bíllinn sem smíðaður var á …
Bugatti 57 þykir einn fegursti bíllinn sem smíðaður var á 4. áratugnum.
Nicolas Cage þykir helst til eyðslugjarn og hefur eytt fúlgum …
Nicolas Cage þykir helst til eyðslugjarn og hefur eytt fúlgum fjár í bíla, snekkjur og annan lúxus.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: