VW-svindl veldur ótímabærum dauða

AFP

Afleiðingar hinna ólögmætu blekkingarforrita í fjölda Volkswagenbíla kunna eiga eftir að reynast afdrifaríkari en menn hafa gert sér í hugarlund.

Samkvæmt nýrri rannsókn sem birtist í dag í fagritinu Environmental Research Letters, segja vísindamenn við Harvardháskólann, að mengunin sem losuð var með blekkingunum gæti valdið ótímabundnu andláti að minnsta kosi 60 Bandaríkjamanna, ef ekki fleiri.

Vísindamennirnir segja að 10 til 40 sinnum meiri losun VW-bílanna á eiturloftinu nituroxíði myndi stuðla að ótímabæru andláti og kosta bandaríska ríkið um 450 milljónir dollara. Drægi Volkswagen á langinn að innkalla blekkingarbílana, sem eru tæplega hálf milljón talsins þar í landi,  gætu 140 ótímabær dauðsföll til viðbótar átt sér stað vegna þeirra.

Til viðbótar dauðsföllum segir í greininni í Environmental Research Letters, að útblástur bílanna muni stuðla að 31 tilfelli krónísks bronkítis, 34 innlögnum á sjúkrahús vegna hjartasjúkdóma og leiða til 120.000 veikindadaga vinnandi fólks.

Loftmengun er vaxandi vandamál í Bandaríkjunum, en þar er talið að öragnir í lofti og ósonloft stuðli að kringum 165.000 ótímabærum dauðsföllum ár hvert. Blekkingarbúnaður Volkswagen hafi gert illt verra, segja vísindamennirnir.

mbl.is