14,5% færri bílabrennur

Bílabrennur voru færri í París og annars staðar í Frakklandi …
Bílabrennur voru færri í París og annars staðar í Frakklandi í ár en í fyrra. mbl.is/afp

Meðal fastra tíðinda um hver áramót í Frakklandi er hversu mörgum bifreiðum var kveikt í á gamlárskvöld. Innanríkisráðherrann þakkaði lögreglu og yfirvöldum að bílabrennunum fækkaði um 14,5% frá fyrra ári.

Alls urðu 804 bílar eldi að bráð á gamlárskvöld og nýjársnótt í Frakklandi, að sögn innanríkisráðuneytisins en ári fyrr voru bifreiðarnar 940.

Í tengslum við áramótafögnuði voru handteknir 622 manns eða tvöfalt fleiri en í fyrra og voru 368 hnepptir í gæsluvarðhald, sem er 46,6% aukning. Yfir hundrað þúsund her- og lögreglumenn héldu uppi eftirliti á götum úti í París og stærri borgum og bæjum um áramótin. Samkvæmt yfirlýsingu innanríkisráðuneytisins nú síðdegis voru ofbeldisverk áberandi færri í ár en undanfarin ár.

Sú undarlega iðja að kveikja í bílum gerði fyrst vart við sig snemma á áttunda áratug nýliðinnar aldar. Hefur þetta hátterni að mestu einskorðast við héruð austast í Frakklandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina