Toyota á toppnum fimmta árið í röð

Fátt ef nokkuð getur komið í veg fyrir að Toyota verði stærsti bílaframleiðandi heims þegar tölur síðasta árs eru teknar saman.

Seldi japanski bílrisinn fleiri bíla í nóvember en Volkswagensamsteypan og er það fimmti mánuðurinn í röð sem Toyota er söluhærri.

Toyota hafði selt 9,21 milljón bíla við nóvemberlok en á sama tímabili afhenti Volkswagen 9,1 milljón bíla. Munaði 110.000 eintökum á risunum tveimur þegar mánuður var eftir af árinu og hafi bilið aukist úr 91.000 í októberlok. Hefur VW að undanförnu goldið fyrir útblásturshneyksli sem valdið hefur samdrætti í sölu á helstu mörkuðum.

Heildarsala Toyota frá áramótum til nóvemberloka er 1% minni en á sama tímabili í fyrra. Er þar meðtalin sala á Daihatsu og Hino. Nam hún 9.207.000 eintökum, samanborið við 9.095.900 bíla hjá Volkswagensamsteypunni. Þrátt fyrir lítils háttar samdrátt frá áramótum jókst sala Toyota í nóvember um 1% miðað við nóvember í fyrra og nam 854.000 bílum. Samdráttur varð í Japan vegna hækkunar á bifreiðagjöldum og í Miðausturlöndum.

Lækkandi bensínverð hefur hins vegar leitt til talsverðrar uppsveiflu á stærsta markaði Toyota, í Norður-Ameríku sem bætt hefur upp samdrátt á öðrum svæðum. Þar ruku út jeppar og pallbílar japanska risans í gríð og erg. Er því ekki útlit fyrir annað en að Toyota hampi titlinum stærsti bílsmiður heims þegar árið 2015 verður gert upp. Þykir fyrirtækinu samt að í samdrátt stefni í fyrsta sinn í fjögur ár en það áætlar að salan í ár verði engu að síður 10.098.000 eintök.

Volkswagen hafði haft í fullu tré við Toyota í hnífjafnri keppni framan af árinu. Á miðju ári virtist sem djarfar söluáætlanir stefndu VW á toppinn því í júnílok hafði fyrirtækið selt fleiri bíla en japanski keppinauturinn. Uppfrá því tók Toyota hins vegar að sækja á og seldi fleiri bíla en VW hvern mánuðinn á fætur öðrum. Hneyksli sem rakið er til blekkingarbúnaðar í nokkrum dísilbílamódelum VW-samsteypunnar og upp komst um í haust, hefur virkað sem bremsa á sölu þýska bílrisans á síðasta fjórðungi ársins. Efnahagslegur samdráttur í Brasilíu, þar sem hlutdeild VW hefur verið mikil, hefur einnig tekið sinn toll. Í heildina séð hefur VW þurft að horfa upp á sölusamdrátt síðustu átta mánuðina í röð, miðað við sömu mánuði í fyrra. Samdrátturinn frá áramótum til nóvemberloka nemur 2% miðað við sama tímabil í fyrra.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: