Hjólin vinsælli en bíllinn í Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn hefur lengi þótt Mecca hjólreiðafólks, en í haust var …
Kaupmannahöfn hefur lengi þótt Mecca hjólreiðafólks, en í haust var fjöldi reiðhjóla á götum borgarinnar í fyrsta skipti meiri en fjöldi bíla. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umferð hjóla mældist nú í haust í fyrsta skiptið meiri en umferð bíla í Kaupmannahöfn, en samkvæmt mælingu í september voru talin hjól 265.700 á móti 252.600 bílum sem fóru inn og út úr borginni. Þetta er fjölgun um 35.800 hjól frá því á sama tíma í fyrra. Yfirvöld í Kaupmannahöfn hafa frá því árið 1970 mælt umferðina á þennan hátt og hafa vinsældir hjólsins sem fararmáta aukist mikið undanfarin 10 ár. 

Yfirvöld í Kaupmannahöfn hafa á undanförnum 10 árum sett 1 milljarð danskra króna, eða um 17 milljarða aukalega í ýmiskonar uppbyggingu hjólreiðainnviða, svo sem hjólabrúa. Þetta hefur skilað sér í gríðarlegri fjölgun þeirra sem ákveða að fara í og úr vinnu eða námi á hjóli.

Kaupmannahöfn.
Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rannsóknir sem hafa verið gerðar á ferðavenjum Kaupmannahafnaríbúa benda til þess að 41% þeirra notist við hjól til að fara til vinnu. 27% notast við almenningssamgöngur og 26% við einkabílinn. Markmið Kaupmannahafnarborgar er að notkun hjóla fari aldrei undir 30% og að notkun bíla fari aldrei yfir 30%.

Lesa má nánar um niðurstöður talningarinnar og hjólavenjur Kaupmannahafnarbúa á vef Copenhagenize

mbl.is

Bloggað um fréttina