Í dekkjaverksmiðju í Kína. Alþjóðlegir staðlar um gæðaflokkun, burðarþol, gerð og merkingu dekkja hafa hingað til verið bandarískir en nú er verið að innleiða evrópsk viðmið sem gilda munu á þessu sviði.
Í dekkjaverksmiðju í Kína. Alþjóðlegir staðlar um gæðaflokkun, burðarþol, gerð og merkingu dekkja hafa hingað til verið bandarískir en nú er verið að innleiða evrópsk viðmið sem gilda munu á þessu sviði. — Reuters
IH með lausn á afturdemparamáli í Subaru IH býður nú hefðbundna afturdempara frá Subaru í stað þeirra með hleðslustillingunni. Stykkið kostar 37 þús. kr og gormurinn 23 þús. kr. – stk.

IH með lausn á afturdemparamáli í Subaru

IH býður nú hefðbundna afturdempara frá Subaru í stað þeirra með hleðslustillingunni. Stykkið kostar 37 þús. kr og gormurinn 23 þús. kr. – stk. Ekki er þörf á breytingum, hvorki með upphækkunarklossum né öðru. Að sögn fyrirtækisins hefur salan strax tekið við sér og greinilegt að margir hafa verið að bíða eftir lausn sem þessari sem Vefsíða Leós vakti fyrst máls á.

Evrópsk gæðaflokkun dekkja samkvæmt staðli

Alþjóðlegir staðlar um gæðaflokkun, burðarþol, gerð og merkingu dekkja hafa hingað til verið bandarískir (DOT-flokkun/merking). Þeir staðlar koma að miklu gagni í Bandaríkjunum, meðal annars til að sjá af DOT-merkingu hvenær dekk var framleitt og fleira. En ýmislegt er öðruvísi í Evrópu bæði varðandi hönnun og byggingu bíla, hraðatakmarkanir, gerð flutningabíla er ólík og svo framvegis. Á síðari árum hefur framleiðsla á dekkjum aukist gríðarlega í Kína og víðar í Asíu. Þótt margar af stærstu dekkjaverksmiðjum, t.d. í Kína og Indónesíu, séu í eigu bandarískra og franskra fyrirtækja er ekki þar með sagt að gæðamálin, svo sem staðalgæði, gæðavottun og fleira, séu eins og best verður á kosið.

Dekk eru flókin fyrirbæri sem eiga að vinna með fjöðrunarkerfi bílsins. Þættir eins og gúmmíblanda, trefjalög og bygging dekksins skipta höfuðmáli varðandi gæði. Dekk sem eru framleidd án tillits til ofangreindra þátta geta skapað aukna hættu í umferðinni. Dekkin eru lykilatriði enda snerting bíls við veg.

Til að auðvelda fólki val á dekkjum er Evrópusambandið að innleiða staðlakerfi fyrir evrópskar aðstæður. Kerfið mun taka gildi frá og með nóvember á næsta ári. Settar verða upp dekkjaprófunarstöðvar í Hollandi og Þýskalandi. Þar verða dekk prófuð og gæðaflokkuð á mælikvarða frá A til G fyrir innra viðnám (hefur áhrif á eldsneytiseyðslu), hljóðmyndun og veggrip. Allir framleiðendur sem ætla að selja dekk á Evrópumarkaði þurfa að uppfylla þennan staðal og verða allir hjólbarðar að vera merktir samkvæmt sérstakri reglu.

Chevrolet Yukon: Airbag ljós lýsir stöðugt

Spurt: Ég á Youkon 1996. Airbag-ljósið logar í mælaborðinu. Bíllinn hefur ekki orðið fyrir neinu hnjaski eða slíku. Varð reyndar rafmagnslaus í haust. Geturðu ráðlagt mér eitthvað varðandi þetta? Eða þarf ég að láta lesa af honum?

Svar: Algengasta ástæða þess að Airbag-ljósið lýsir án þess að nokkuð hafi komið fyrir bílinn er sambandsleysi í bílbeltalás framstóls. Aftengdu rafgeyminn og bíddu í fimm mínútur: Skoðaðu rafleiðslurnar undir stólunum. Sé ekkert að þeim skaltu úða rækilega með Electrical Connection Cleaner (Fæst hjá Poulsen) í lásana, bíða tvær mínútur og blása svo úr þeim með þrýstilofti. Ástæða er til að benda á að ljósið fyrir beltislás er óviðkomandi Airbag-ljósinu. Það er beltastrekkjarinn (sem tengist lásnum) sem slekkur Airbag-ljósið en strekkjarinn færist fram og aftur með stólnum. Straumleiðsla gæti því verið rofin þótt beltisljósið slokkni. Annað: Verði einhverjir af rofunum í stýrishjólinu óvirkir um svipað leyti getur leiðslupúðinn (Clock-spring) í stýrismiðjunni verið ónýtur. Þá eru eftir Airbag-tölvan og flóttaaflsneminn í framstykkinu fyrir framan vatnskassann. Í því tilviki er árangursríkast að láta tölvulesa kerfið.

Ábendingl

Teppt frjóagnasía getur valdið vatnsleka

Frjóagnasía, sem er í inntaki miðstöðvar, gegnir því hlutverki að sía óhreinindi, þar með talið ryk og sót, og girða fyrir að þau berist inn í farþegarými bíls. Fyrr eða síðar teppist þessi sía. Þá minnka afköst miðstöðvarinnar auk þess sem vatn getur farið að leka inn í bílinn og móða myndast innan á rúðum. Frjóagnasíur fást í bílabúðum.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)