Fyrst var ekið í gegnum Þjórsárver árið 1950

Úr Þjórsárverum
Úr Þjórsárverum mbl.is/Brynjar Gauti

Ferðaklúbburinn 4x4 hefur mikið sinnt stikun og skráningu vegarslóða á miðhálendinu, að sögn Jóns Snæland, formanns ferlanefndar Ferðaklúbbsins 4x4. Undanfarin þrjú sumur hefur klúbburinn unnið með Landmælingum Íslands að mælingu á slóðum ofan miðhálendislínunnar. Jón taldi að því verkefni lyki að mestu í haust.

Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, skrifaði grein í Morgunblaðið sl. laugardag og sagði þar m.a. að yfirvöld hefðu síðustu 10-20 ár glímt við akstur utan vega, án viðunandi árangurs. Jón sagði að sér þætti Kolbrún hafa vegið þar að útivistarfólki sem hefði barist í þessu lengi. „Hún vildi meina að enginn árangur hefði náðst í þessum efnum síðustu 10-20 árin. Ég veit ekki hvernig þetta liti út ef enginn hefði sinnt þessu,“ sagði Jón.

„Við erum nánast þeir einu á landinu sem stika kerfisbundið hálendisleiðir. Við höfum unnið í bæklingagerð og styrkt útgáfu bæklinga. Okkur finnst við oft vera mjög einir í þessu. Það er frekar að ríkisbatteríið hafi sett fótinn fyrir okkur en að það hafi aðstoðað okkur. Þeir hafa bannað okkur að stika vissar leiðir og verið í afskaplega litlu samstarfi við okkur,“ sagði Jón. Hann segir þetta einkum hafa átt við Umhverfisstofnun, en samvinnan við hana hafi þó batnað.

Umhverfisráðuneytið stóð fyrir stofnun samráðshóps á þessu ári um fræðslu gegn akstri utan vega. Í honum áttu m.a. sæti fulltrúar frá Umhverfisstofnun, umhverfisráðuneytinu og Ferðaklúbbnum 4x4, auk margra annarra. Nýlega var gerður samningur um uppsetningu skilta á helstu hálendisleiðum landsins með fræðslu.

Kolbrún skrifaði m.a. um slóða í Þjórsárverum sem merktur var á GPS-korti en ekki á korti Landmælinga. Hún segir að þessi slóði hafi ekki verið þarna 1981 þegar friðlandið var stofnað. Jón kannaðist vel við slóðann og sagði hann fyrst hafa verið farinn 1950 og að hann hefði verið notaður síðan.

„Þessi leið var fyrst ekin af Páli Arasyni og Guðmundi Jónassyni árið 1950,“ sagði Jón. Hann hefur skrifað langa grein um þennan slóða á spjallsvæði Ferðaklúbbsins 4x4 (www.f4x4.is) í flokknum „umhverfismál“. Fyrst var leiðin farin fyrir atbeina Einars Magnússonar frá Miðfelli og var farið á þremur bílum. Leiðin reyndist mjög torfær og raunar ófær að mati þeirra sem fóru hana fyrst. Jón segir það ekki rétt, enda hafi síðan verið farið þarna um á vélknúnum farartækjum m.a. í tengslum við göngur og sporðamælingar jökla.

„Að halda því fram að þessar slóðir hafi ekki verið þarna, eins og Kolbrún Halldórsdóttir segir, er ekki rétt,“ sagði Jón.

Í hnotskurn
» Ferðaklúbburinn 4x4 hefur unnið að mælingum slóða og leiða á hálendi Íslands fyrir Landmælingar Íslands. Þessar upplýsingar fara í gagnagrunn Landmælinga.
» Sveitarfélög og fleiri sem hagsmuna eiga að gæta koma síðan að ákvörðun um hvaða slóða eigi að skrá á kort og hverja ekki. Slóðirnar verða birtar á rafrænu korti.
» Land innan hálendislínunnar tilheyrir 24 sveitarfélögum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert