Emirates tekur blóðsýni fyrir flug

Emirates hefur hafið blóðsýnatöku.
Emirates hefur hafið blóðsýnatöku. AFP

Eitt stærsta flugfélag í heimi, Emirates, tilkynnti á miðvikudag að það hygðist taka blóðsýni úr öllum sínum farþegum fyrir flug til að tryggja að enginn farþegi væri smitaður af kórónuveirunni. 

Samkvæmt tilkynningunni voru fyrstu blóðsýnin tekin í gær á alþjóðaflugvellinum í Dúbaí. Blóðsýnin voru tekin úr öllum farþegum sem voru á leið til Túnis. Sýnin voru tekin af heilbrigðisyfirvöldum í Dúbaí á hópinnritunarsvæðinu á flugvellinum. Niðurstöður úr blóðsýnunum lágu fyrir eftir um 10 mínútur að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Þetta er gert vegna farþega Emirates sem ferðast til landa sem krefjast þess að fólk sýni fram á að þeir séu ekki sýktir af veirunni. 

Flugfélagið hefur ekki gefið út hvort farþegum sem greinast með veiruna verði meinaður aðgangur út frá niðurstöðum blóðsýnanna. 

Blóðsýni geta ekki sýnt hvort fólk sé smitað af veirunni eða ekki. Hins vegar er hægt að skoða prótein í ónæmiskerfinu með blóðsýni og þar með kanna hvort viðkomandi hafi mótað mótefni gegn veirunni. Finnist mótefni í blóðsýninu getur það gefið til kynna að viðkomandi hafi veikst af veirunni og náð sér aftur. 

Það er margt á huldu um hvort slík blóðsýni muni hindra útbreiðslu veirunnar frekar en á vef CNN Travel segir að líklegt þyki að litið verið á þetta sem skref í rétta átt í flugsamgöngum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert