Opna landamærin fyrir bólusettum

Phuket er einn vinsælasti ferðamannastaður Taílands.
Phuket er einn vinsælasti ferðamannastaður Taílands. AFP

Stjórnvöld í Taílandi tilkynntu undir lok síðustu viku að þau hygðust fara af stað með tilraunaverkefni sem felur í sér að opna landamærin fyrir erlendum ferðamönnum sem hafa verið fullbólusettir. 

Hin ofurvinsæla strönd Phuket varð fyrir valinu í tilarunaverkefninu. 

Harðar sóttvarnareglur hafa verið í gildi á landamærum Taílands síðan heimsfaraldurinn hófst og hefur efnahagur landsins goldið fyrir það. Nú geisar versta fjármálakreppa síðan 1997 í Taílandi og snertir hún fleiri geira en bara ferðaþjónustuna. Skemmtanaiðnaðurinn, verslanir, hótel og veitingastaðir finna verulega fyrir kreppunni. 

Gert er ráð fyrir að tilraunaverkefnið í Phuket hefjist í júlí á þessu ári. Þá þurfa ferðamenn að sýna fram á að þeir hafi fengið tvo skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni og framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi. Þeir munu líka þurfa að sækja smitrakningarapp í símann sinn. 

Slakað verður á aðgerðum í sex vinsælum ferðamannaborgum í Taílandi í byrjun apríl. Þá hefur sóttkvíartíminn verið styttur niður í viku og ferðamenn mega fara í stuttan radíus í kringum hótelið sem þeir dvelja á. Nú þurfa ferðamenn að vera í sóttkví í tvær vikur á hóteli og ekki yfirgefa það. 

Taílensk stjórnvöld hafa getað haft töluverðan hemil á faraldrinum vegna harðra sóttvarnareglna á landamærum en um 28.500 smit hafa verið greind hjá þessari 70 milljón manna þjóð. 

Sem fyrr segir er ferðamannaiðnaðurinn burðarstoð í hagkerfi Taílands og sækja milljónir manna landið heim á ári hverju. Á síðasta ári var gert ráð fyrir að 40 milljónir ferðamanna myndu heimsækja landið en aðeins 6,7 milljónir komu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka