Fékk flugmannsstarf aðeins tvítug

Ninni Thisner kom til Íslands 18 ára til að læra …
Ninni Thisner kom til Íslands 18 ára til að læra flug. Ljósmynd/Aðsend

Hin sænska Ninni Thisner kaus átján ára gömul að halda á vit ævintýranna og koma til Íslands til þess að sækja sér atvinnuflugmannsréttindi. Stuttu eftir útskrift frá Flugakademíunni var hún ráðin sem flugmaður hjá Ryan Air, þá aðeins tvítug.

Ninni segir valið á framtíðarstarfinu ekki hafa legið skýrt fyrir í upphafi. Hana langaði að prófa eitthvað öðruvísi meðan hún var í menntaskóla og ákvað, þrátt fyrir að þekkja engan flugmann og án utanaðkomandi áhrifa, að láta reyna á flugið. Hún segir að eftir fyrsta flugtímann hafi ekki verið aftur snúið – stefnan hafði skýrst. Ninni lauk atvinnuflugnámi á eins hreyfils flugvél samhliða menntaskólanámi í náttúruvísindum.

Hvers vegna að læra flug á Íslandi?

En hvað dró þennan sænska náttúruunnanda og hestamann til Íslands til þess að eltast við flugmannsdrauminn? „Landið virtist mér undurfagurt og hrífandi, það var ódýrara að læra flug á Íslandi en heima og það virtist einfalt að velja þá áfanga sem ég þurfti til,“ segir Ninni „Ég skemmti mér konunglega og kynntist stórkostlegu fólki. Það var frábært að búa rétt við skólann og námsfyrirkomulagið hentaði mér fullkomlega.“ Hún segist enn halda sambandi við gömlu skólafélagana og mæta þeim reglulega á flugi um Evrópu.

Ninni Thisner ásamt áhöfn SAS.
Ninni Thisner ásamt áhöfn SAS. Ljósmynd/Aðsend

Veður skipuðust skjótt í lofti í eftirminnilegasta fluginu

„Ég á helling af skemmtilegum minningum úr fluginu, en hugsa oft til flugs sem reyndist mér lærdómsríkt. Árið 2017 var ég að fljúga fyrir SAS á B737 frá Arlanda flugvelli í Stokkhólmi til Nice og veðrið breyttist skyndilega. Flugvellinum var lokað svo við urðum að breyta um stefnu, en veðrið var jafn slæmt á varaflugvöllunum. Að lokum völdum við flugvöll utan áætlunar þar sem veðrið var ágætt og var innan færis. Þegar við tókum að lækka flugið að flugvellinum í Genóa bætti skyndilega í meðvindinn og skýjahulan fór hrakandi svo við urðum að láta af áætlunum um lendingu og breyta aftur um stefnu. Við lentum að lokum án frekari vandkvæða í Tórínó. Þetta flug kenndi mér mikilvægi þess að hugsa alltaf skrefinu lengra, ef plan B klikkar – hvert er þá plan C?“

Ninni í háloftunum.
Ninni í háloftunum. Ljósmynd/Aðsend

Innblástur frá samstarfsfélögum

Ninni segist sækja innblástur til þeirra flugstjóra og flugkennara sem hún hittir og flýgur með. „Ég reyni að læra af eiginleikunum sem gera þau að góðum leiðtogum og kennurum. Leiðtogafærni þeirra og færni í að bæta vellíðan og sjálfstraust í nemendum sínum og samstarfsfélögum að flugi eða flugtíma loknum veitir mér innblástur. Mig langar að læra frá þeim og verða jafn góður leiðtogi og samstarfsfélagi.“

Eftir tvö ár hjá Ryan Air hóf Ninni störf hjá SAS þar sem hún hefur starfað sem flugmaður allar götur síðan, með smá truflunum vegna heimsfaraldursins undanfarið ár. Ninni segir að þrátt fyrir að fluggeirinn geti oft reynst ófyrirsjáanlegur hafi hún aldrei séð eftir valinu á starfsvettvangi og myndi ekki skipta honum út fyrir neinn annan. Hún stefnir að því að verða flugstjóri á næstu fimm árum en segist jafnframt ánægð með hvaða flugmannsstarf sem er byggt á góðum forsendum.

Keilir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert