Hönnunarhótel opnar í sögufrægu húsi í Stykkishólmi

Einstök fagurfræði einkennir hótelið sem er staðsett í Stykkishólmi.
Einstök fagurfræði einkennir hótelið sem er staðsett í Stykkishólmi. Samsett mynd

Hótel Karólína í Stykkishólmi hefur opnað dyr sínar fyrir ferðafólki sem á leið um Snæfellsnesið, en það er staðsett í hinu sögufrægu Sýslumannshúsi sem nýlega gekkst undir miklar breytingar.

„Á síðustu árum hafa miklar endurbætur verið gerðar á húsnæðinu og umhverfinu í kring. Húsið er gjörbreytt og er orðið stórglæsilegt. Öll herbergi hafa nú sér baðherbergi með sturtu, ásamt því að sameiginlegt rými hefur verið endurnýjað, sem og lóð hússins,“ segir Halszka Wierzbicka, hótelstýra Hótels Karólínu.

Hótelið hefur verið innréttað á fallegan og sjarmerandi máta.
Hótelið hefur verið innréttað á fallegan og sjarmerandi máta.
Falleg litapalletta og notaleg stemning eru í forgrunni.
Falleg litapalletta og notaleg stemning eru í forgrunni.

Það voru iðnaðarmenn í Stykkishólmi sem unnu við endurbæturnar og segir Halszka þá hafa skilað af sér ótrúlegu verki. „Við erum virkilega stolt af breytingunum og trúum því að við höfum búið til frábært hótel sem gestir okkar verði himinlifandi með.“

Hótel Egilsen er systurhótel Karólínu og er rekstur þeirra samofinn, en þau standa við sömu götu í Hólminum. „Egilsen ruddi brautina sem fyrsta hönnunarhótelið á Vesturlandi og er til dæmis orðið frægt fyrir morgunmatinn, en sami morgunmatur verður í boði á Karólínu.“

Á hótelinu er boðið upp á sama morgunmat og á …
Á hótelinu er boðið upp á sama morgunmat og á Hótel Egilsen.
Húsið er ekki einungis sjarmerandi að innan heldur einnig að …
Húsið er ekki einungis sjarmerandi að innan heldur einnig að utan.

Nánd og náttúra

Halszka er menntuð í bókmenntum og menningarfræði í heimalandi sínu, Póllandi, en hún hafði verið búsett víða um heim áður en hún settist að á Íslandi þar sem hún hefur starfað í ferðamennsku undanfarin sex ár.

„Ég heimsótti Ísland og heillaðist af náttúrunni hér og ákvað að flytja hingað,“ segir Halzska, en hún kann vel við nándina sem ríkir í Hólminum og notar gönguferðir til þess að hugleiða, fá orku og njóta víðáttunnar í námunda við bæinn.

Halszka varð heilluð af íslensku náttúrunni.
Halszka varð heilluð af íslensku náttúrunni.
Hugsað hefur verið út í öll smáatriði á hótelinu.
Hugsað hefur verið út í öll smáatriði á hótelinu.

Húsið upprunalega byggt árið 1896

Sýslumannshúsið var byggt árið 1896, en það fer tvennum sögum af því hver það var sem lét byggja það. Lengi vel var Guðmundi Guðmundssyni lækni eignaður sá heiður, en hin síðari ár hefur því verið haldið fram að annar læknir, Davíð Scheving Thorsteinsson, hafi staðið á bak við byggingu hússins.

Í öllu falli, þá var rekin læknastofa í húsinu fyrstu áratugina, eða allt til ársins 1933, þegar skrifstofa sýslumannsins í Stykkishólmi brann. Aðsetur hans var flutt yfir í hús læknisins í kjölfarið, sem var þá hið nýja Sýslumannshús, þar sem sýslumenn höfðu bæði skrifstofur og aðsetur allt til ársins 2000. Gistiheimilið Sýsló hefur verið rekið í húsnæðinu á undanförnum árum, þar sem Hótel Karólína hefur nú hafið starfsemi.

Sýslumannshúsið er tignarlegt hús sem reist var árið 1896.
Sýslumannshúsið er tignarlegt hús sem reist var árið 1896.
Í húsinu hefur verið læknastofa, skrifstofa og aðsetur sýslumannsins í …
Í húsinu hefur verið læknastofa, skrifstofa og aðsetur sýslumannsins í Stykkishólmi og gistiheimilið Sýsló.

Frumkvöðull í framúrskarandi þjónustu

En hver er þessi Karólína sem hótelið dregur nafn sitt af? „Karólína Jóhannesdóttir hét fyrsta konan í Stykkishólmi til að bjóða upp á veitingasölu og gistiþjónustu um miðja síðustu öld,“ segir Halszka, en um Karólínu og gistihús hennar var ritað svo í minningargrein árið 1991:

„Fjöldinn sem þangað lagði leið sína er ótalinn og hvernig þjónustan var sýna gestabækur hennar, þar sem margur maðurinn lét þakklæti sitt í ljós. Og tryggð fjölda manns við Karólínu, sem myndaðist á þessum árum, mun einsdæmi. Það var mörgum undrunarefni hversu stóran hóp hún gat afgreitt og eins hve mörgum hún gat komið við borðið, og alltaf virtust allir fá nógan og góðan mat.“

Karólína var landsþekkt fyrir góða þjónustu, framskúrandi veitingar og var sögð sannkallaður frumkvöðull á sínu sviði. „Við vildum heiðra minningu hennar og því var ákveðið að nefna hótelið eftir henni,“ segir Halszka.

Tímalausir hönnunarmunir prýða hótelið.
Tímalausir hönnunarmunir prýða hótelið.
Víðsvegar á hótelinu má sjá muni sem fegra rýmin.
Víðsvegar á hótelinu má sjá muni sem fegra rýmin.

Líka fyrir Íslendinga

Það er nóg um að vera í Stykkishólmi fyrir ferðafólk. Söfn, sundlaug, veitingastaðir og kaffihús eru í góðu göngufæri frá Hótel Karólínu. En Stykkishólmur er líka kjörin bækistöð fyrir fólk sem vill skoða sig nánar um í þessum landshluta.

„Stærsti viðskiptavinahópur okkar er erlent ferðafólk sem kemur til þess að njóta lífsins í Stykkishólmi og vill kynnast magnaðri náttúrunni á Snæfellsnesi,“ segir Halszka, en bætir því við að vonir standi til að Íslendingar muni nota hótelið í umtalsverðum mæli og njóta alls þess sem Stykkishólmur hefur upp á að bjóða. „Hér er hægt að finna sér ótalmargt að gera, auk þess sem fallegra bæjarstæði er vandfundið á Íslandi.“

Halszka vonar að Íslendingar muni líka njóta hótelsins.
Halszka vonar að Íslendingar muni líka njóta hótelsins.
Snæfellsnes er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð.
Snæfellsnes er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert