Hljóp þvert yfir Ísland á 17 dögum

Szapar hljóp alls 1.100 kílómetra þvert yfir Ísland.
Szapar hljóp alls 1.100 kílómetra þvert yfir Ísland. Ljósmynd/Przemysław Szapar

Pólverjinn Przemysław Szapar sló hraðamet í að hlaupa frá austasta punkti Íslands yfir á þann vestasta, alls um 1.100 kílómetra leið. Þá er hann einnig fyrsti maðurinn til þess að hlaupa þessa leið með allan farangur sinn á bakinu.

Það tók Szapar alls 17 daga og níu klukkustundir að hlaupa frá Gerpi á Austfjörðum yfir á Bjargtanga á Vestfjörðum í júlímánuði. Hann hljóp að meðaltali 62 kílómetra á dag og því meira en heilt maraþon á dag í 17 daga.

Leiðin sem Szapar hljóp.
Leiðin sem Szapar hljóp.

„Ég vildi hlaupa þessa leið af því að þetta er ein afskekktasta leið í Evrópu. Ég hef verið hugfanginn af Íslandi sem áskorun í langan tíma,“ segir Szpar í samtali við mbl.is en eitt af markmiðum hans var að forðast þjóðveginn og hlaupa eins mikið á afskekktum malarvegum og hægt var.

Reyndi við leiðina fyrir tveimur árum

Szapar býr nærri Gdansk í norður Póllandi með fjölskyldu sinni og rekur sitt eigið fyrirtæki. Þá er hann einnig hlaupaþjálfari og kennir crossfit.

Szapar eru reyndur utanvegahlaupari og er viðurkenndur methafi í nokkrum hlaupum frá bandarískri stofnun sem sér um að halda utan um slík met. Meðal annars hefur hann tekið utanvegahlaup í Skotlandi og við Baíkal-vatn í Síberíu.

Szapar hljóp meðal annars yfir miðhálendið.
Szapar hljóp meðal annars yfir miðhálendið. Ljósmynd/Przemysław Szapar

Hlaupið á Íslandi er hins vegar lengsta og hættulegasta utanvegahlaupið sem Szapar hefur hlaupið.

Szapar hafði reynt við leiðina fyrir tveimur árum en þurft að hætta við á þriðja degi vegna stórhríðar. Hann segir að í ár hafi hann einnig lent í slæmu veðri, sérstaklega á Vestfjörðum sem hægði mikið á honum.

„Það voru mjög sterkir vindar og kalt. Ég gat því ekki gert mitt besta á hverjum degi.“

Hljóp með tíu til 14 kíló á bakinu

Szapar hljóp með allt sem hann þurfti á bakinu. „Þetta er ákveðin viðurkennd aðferð sem segir að enginn megi aðstoða mig. Ég hleyp með allt á bakinu sem ég þarf á að halda en má fara í búð sjálfur og ná mér í vatn á leiðinni.“

Á hverjum degi hljóp Szapar með um tíu til 14 kílógrömm á bakinu, eftir því hvar hann gat náð í vatn á leiðinni.

Szapar hljóp með allt sem hann þurfti á bakinu.
Szapar hljóp með allt sem hann þurfti á bakinu. Ljósmynd/Przemysław Szapar

Hann nefnir að um 300 kílómetrar af leiðinni var yfir miðhálendið þar sem auðnin er mikil og lenti hann því í vandræðum með að finna drykkjarvatn. „Þann hluta þurfti ég að vera með að minnsta kosti þrjá lítra af vatni á hverjum degi á bakinu.“

Szapar telur að hann hafi komið á staði sem margir Íslendingar hafa ekki einu sinni komið á. „Þetta voru mjög afskekkt svæði þar sem ég ímynda mér að gömlu þjóðsögurnar hafa orðið til á.“

Langaði bara að komast heim

Hvernig leið þér þegar þú komst á leiðarenda?

„Það var mikill léttir að klára hlaupið. Mig langaði bara að komast heim til Póllands eins fljótt og hægt var,“ segir Szapar kíminn. Hann sagðist ekki hafa verið slæmur líkamlega en andlega var hann ansi þreyttur.

Szapar segir það hafa verið mikill léttir að klára hlaupið.
Szapar segir það hafa verið mikill léttir að klára hlaupið. Ljósmynd/Przemysław Szapar

„Eftir öll svona langhlaup spyr ég sjálfan mig hvort ég gæti hugsað mér að fara leiðina aftur. Í þetta skipti gat ég ekki hugsað mér það, mig langaði bara heim til fjölskyldunnar.“

Szapar segist ekki vera með önnur utanvegahlaup á dagskrá, „nú langar mig bara að njóta þess að vera heima og hvílast en hlaupin hafa verið á sirka tveggja ára fresti svo hver veit hvað mér dettur í hug næst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert