„Mjög ánægður með útkomuna“

Baldur Þórhallsson mælist með næst mesta fylgið í skoðanakönnun Prósents.
Baldur Þórhallsson mælist með næst mesta fylgið í skoðanakönnun Prósents. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baldur Þórhallsson segist mjög sáttur við útkomuna í nýrri skoðanakönnun Prósents en samkvæmt henni er hann með næst mesta fylgið.

Baldur mælist með 25% fylgi i könnuninni og hefur það aðeins dalað en í liðinni viku mældist það 27,2%.

„Ég er mjög ánægður með útkomuna en þetta er bara mæling á þessum tímapunkti. Það er ennþá langt í kosningar og margt sem getur enn gerst. Kosningabaráttan er á fyrstu stigunum og það getur margt breyst ennþá,“ segir Baldur við mbl.is.

Fylgið nokkuð stöðugt

Í könnun Prósents er ekki tölfræðilega marktækur munur á honum og Höllu Hrund Logadóttur, sem mælist með mest fylgi eða 28,5%. Katrín Jakobsdóttir mælist með 18% og Jón Gnarr 16%. Spurður hvort hann líti svo á að baráttan um forsetaembættið verði á milli hans og Höllu eða hvort þetta verði slagur á milli allra þeirra fjögurra efstu segir Baldur:

„Það verður bara að koma í ljós. Við höfum séð nokkrar fylgissveiflur í þessum könnunum en fylgi mitt hefur verið nokkuð stöðugt og ég er mjög þakklátur fyrir það og eins fyrir þann meðbyr sem við finnum á þeim fundum og ferðalögum sem við höfum verið á út um landið,“ segir Baldur.

Hann segist halda áfram að kynna sýn á embættið og framundan séu kappræður í sjónvarpinu.

„Ég hlakka mjög mikið til að hitta meðframbjóðendur mína í umræðuþáttum á næstu dögum og vikum.“

Það hefur verið í nógu að snúast hjá Baldri sem og hjá  flestum frambjóðendum. Baldur segist hafa verið á tveimur opnum fundum i gær, á Selfossi og í Hveragerði. Hann segir að það hafi verið á annað hundrað manns á báðum fundunum.

„Það var gaman að vera með fullt hús á báðum stöðunum og við höldum bara áfram á hringferðinni um landið,“ segir Baldur en hann verður á Reykjanesi á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert