Philippe Starck féll fyrir Akranesi

Hér má sjá hvernig vestasti hluti Akraness gæti litið út …
Hér má sjá hvernig vestasti hluti Akraness gæti litið út samkvæmt sigurtillögu í hugmyndasamkeppni. Mynd/Nordic Office of Architecture

„Þetta er afar spennandi samstarf og mikil viðurkenning fyrir okkur. Það sýnir jafnframt hversu mikil tækifæri eru á þessu svæði,“ segir Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri þróunarfélagsins Breiðar á Akranesi.

Hinn heimskunni hönnuður Philippe Starck hefur lýst yfir áhuga á að hanna hótel á Breiðinni á Akranesi. Starck skoðaði nokkra staði hér á landi en ákvað á endanum að þetta uppbyggingarsvæði á Akranesi félli best að hugmyndum hans.

Philippe Starck.
Philippe Starck. AFP

Afar vinsæll hönnuður

Forsaga þessa máls er að fyrir rétt rúmu ári greindi Morgunblaðið frá því að Philippe Starck, sem eins og margir vita er einn vinsælasti hönnuður samtímans, sæktist eftir að hanna hótel við sjávarsíðuna á Íslandi. Ólafur Sigurðsson, eigandi og hótelstjóri 360 Boutique Hotel, var Starck til aðstoðar við að leita að réttu staðsetningunni fyrir hótelið en kynni tókust með þeim vegna viðbyggingar við hótel Ólafs. Í frétt Morgunblaðsins lýsti Ólafur eftir ábendingum að lóðum við sjávarsíðuna fyrir áform Starcks. Valdís las fréttina og setti sig í samband.

„Hann fékk fjölda annarra ábendinga um flotta staði víða um land. Í kjölfarið skoðaði hann 4-5 staði og einn þeirra var Breiðin. Starck féll fyrir þessum stað og hefur nú formlega lýst því yfir að hann vilji fara í samstarf um að hanna hótel á Breiðinni. Við höfum síðan verið í samskiptum síðasta árið til að ýta þessu af stað,“ segir hún.

Ósnortin náttúra og sjávarsýn

Valdís segir að hugmyndir Starcks falli vel að uppbyggingaráformum á Breiðinni. Bæði heimamenn og hann vilji að sjálfbærni verði þar í hávegum höfð. „Þetta er ótrúlega fallegt svæði. Hér er ósnortin náttúra, fuglalíf og sjávarsýn í 360 gráður. Hann kemur svo með eitthvað einstakt sem gæti orðið segull fyrir svæðið,“ segir hún.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert