Með eyjuna á heilanum í yfir áratug

Sara-Yvonne Ingþórsdóttir í draumaferðalaginu.
Sara-Yvonne Ingþórsdóttir í draumaferðalaginu. Ljósmynd/Aðsend

Sara-Yvonne Ingþórsdóttir, kennari og barnabókahöfundur, fór í ævintýralega ferð til Frönsku Pólýnesíu í fyrra. Hana hafði dreymt um að skoða Bora Bora síðan hún sá myndina Couples Retreat árið 2009. 

„Myndin er tekin upp þar og hef ég verið með eyjuna á heilanum alveg síðan þá.
Bora Bora er ein af mörgum eyjum sem tilheyra Frönsku Pólýnesíunni og eru komin nokkur ár síðan ég kynnti hugmyndina um ferðalag þangað fyrir manninum mínum,“ segir Sara-Yvonne. Hún segir að þau hafi loksins ákveðið að skella sér í fyrra í fjórar vikur eftir að hafa skoðað svæðið og lesið ferðasögur annarra. 

Sara-Yvonne segir að Franska Pólýnesía sé eyjaklasi í Kyrrahafinu sem samanstandi yfir hundrað eyjum. „Flestir kannast líklegast helst við eyjarnar Tahítí og Bora Bora. Svæðið tilheyrir Frakklandi og þarna er töluð franska og tahítíska. Á Bora Bora og Mo'orea töluðu þó flestir ensku, en á Rangiroa og þar í kring er minni túrismi og talar fólkið því aðallega frönsku,“ segir hún en þetta eru einmitt eyjarnar sem hjón ákváðu að skoða sérstaklega. 

Sara-Yvonne Ingþórsdóttir fór með manninum sínum í draumaferðina í fyrra.
Sara-Yvonne Ingþórsdóttir fór með manninum sínum í draumaferðina í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Syntu með hvölum

„Fyrsta eyjan sem við heimsóttum var Mo'orea, en við völdum hana aðallega vegna þess að okkur langaði að synda með hnúfubökum. Árlega frá júlí til nóvember flykkjast hnúfubakar til eyjunnar til þess að fjölga sér og er þá hægt að stinga sér í sjóinn og synda með þeim. Við bókuðum tvær ferðir sitthvorn daginn og fórum meðal annars með Dr. Michael Poole sem er mjög þekktur sjávarlíffræðingur sem hefur búið á svæðinu í mörg ár til þess að rannsaka hnúfubaka. Hann er sá sem uppgötvaði að hnúfubakar kæmu þangað til þess að fjölga sér og snýst líf hans um að rannsaka þá. Það var áhugavert að tala við mann sem hefur tileinkað líf sitt til þess að rannsaka þessi dýr og skemmtilegt að læra svona mikið um hvalina.

Fyrri daginn fundum við hnúfubakskálf og móður og fengum að stinga okkur í sjóinn og synda með þeim. Að synda með hvölum er eitt það trylltasta sem ég hef upplifað og líka eitt það erfiðasta. Lögum samkvæmt þurfa bátar að halda sig í 100 metra fjarlægð frá hvölunum, við þurftum því að setja á okkur froskalappir og synda að þeim síðasta spölinn. Sundið var krefjandi, enda hvalirnir á hreyfingu og sjórinn óstöðugur, öldugangurinn lengdi talsvert sundsprettinn og varð vegalengdin mun lengri en bara þessir 100 metrar. Seinni daginn sáum við líka hnúfubaka en þá var því miður of mikill öldugangur til þess að öruggt væri fyrir okkur að synda í sjónum.

Mo'orea býður upp á fjölbreytta afþreyingu en fyrir utan hvalaferðirnar þá köfuðum við, snorkluðum með hákörlum og stingskötum, fórum út á kajak að skoða lónið í kringum eyjuna, hjóluðum og gistum á æðislegu hóteli alveg við ströndina.“

Sara-Yvonne að kafa.
Sara-Yvonne að kafa. Ljósmynd/Aðsend

Einn besti staðurinn til að kafa

„Næsta eyja sem við heimsóttum heitir Rangiroa, hún er eitt stærsta hringrif (e. atoll) í heiminum. Rangiroa er eins og útlínur af eyju og svo lón í miðjunni. Við fórum fyrst og fremst til Rangiroa því hún er af mörgum talin einn af bestu stöðum í heiminum til þess að kafa. Þetta er mjög vinsæll staður sérstaklega til þess að sjá höfrunga, hákarla og kafa í gegnum Tiputa Pass.

Tiputa Pass er einn af stöðunum á eyjunni þar sem er opið í gegn og vatnið streymir inn og út úr lóninu á mismunandi tíma dags. Eftir hádegi fer straumurinn úr sjónum inn í lónið og þá hefst köfunin fyrir utan rifið og svo lætur maður strauminn bera sig inn. Maður fer hratt í gegnum opið þar sem straumarnir eru mjög sterkir, við fengum gott adrenalín kick að kafa þarna í gegn og höfðum mjög gaman af. Fyrir hádegi köfuðum við fyrir utan rifið og þar sáum við yfirleitt höfrunga. Höfrungarnir eru mjög forvitnir og vinalegir hjá Rangiroa og eru þekktir fyrir að koma upp að köfurum og vilja leika og láta klappa sér. Eyjan stóðst allar mínar væntingar um dásamlega köfun. Við sáum höfrunga í átta af 12 skiptum sem við köfuðum og þrisvar sinnum komu þeir til okkar, skoðuðu okkur og vildu láta klappa sér.

Það var eitt skipti í ferðinni sem er okkur mjög minnisstætt, við vorum í um það bil 25 metra dýpi að horfa á líklega hundrað hákarla synda fyrir neðan okkur en þá greip köfunarkennarinn í mig, synti aðeins upp á við og sýndi okkur stóran hóp af höfrungum syndandi yfir okkur. Maður vissi ekki hvort maður ætti að horfa upp eða niður, þetta var magnað augnablik. Rangiroa er aðallega frábær staður til að kafa en annars er lítið við um vera þar.“

View this post on Instagram

A post shared by Sara-Yvonne (@sarayvonne90)

Afslöppun á Bora Bora

„Að lokum fórum við loksins til Bora Bora þar sem eina markmiðið okkar var að slaka á. Þar gátum við snorklað, borðað góðan mat, skálað í kampavíni og notið þess að vera til. Bora Bora er án efa fallegasti staður sem ég hef heimsótt. Ég hef sjaldan séð eins fallega bláan sjó og hún stendur undir nafni sem perla Kyrrahafsins. Þetta er einn af þeim stöðum sem er mikið fallegri í alvörunni heldur en á myndum. Við gistum á St. Regis hótelinu í „bungalow“ sem er yfir sjónum, bara það er upplifun út af fyrir sig. Hótelið er stórt og fylgdu reiðhjól með herbergjunum til þess að ferðast um svæðið. Inn á St. Regis svæðinu er spa, fjórir veitingastaðir, lón til að snorkla í, strönd, tennisvöllur, líkamsræktarstöð og margt fleira. Þetta er eitt flottasta hótel sem ég hef nokkurn tímann verið á.

Hver elskar ekki Bora Bora?
Hver elskar ekki Bora Bora? Ljósmynd/Aðsend

Við urðum alveg ástfangin af Frönsku Pólýnesíunni í ferðinni og okkur langar að fara aftur og skoða fleiri eyjur. Menningin heillaði okkur líka, hvert sem við fórum fengum við gott viðmót hjá fólkinu. Það eru allir brosandi og flestir heilsa þér á götunum. Þarna stýrir dagsbirtan sólarhringnum en fólk vakir með sólinni og sefur þegar hún sest, ferðamennirnir gera það yfirleitt líka og var það kannski frábrugðið öðrum fríum. Við vorum því yfirleitt vöknuð um sex á morgnana og farin að sofa fyrir tíu. Sjórinn, náttúran, fólkið, menningin, dýralífið og maturinn fannst mér alveg upp á tíu.“

View this post on Instagram

A post shared by Sara-Yvonne (@sarayvonne90)

Allt stóðst væntingar

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerðir?

„Að fá að kynnast dýralífinu. Að synda með hnúfubökum, kafa með höfrungum og snorkla með hákörlum og stingskötum var alveg toppurinn fyrir mig.“

Var eitthvað sem kom á óvart?

„Ég var mest hissa á því hvað ferðin stóðst allar mínar væntingar og ekkert fór úrskeiðis. Ég var aðeins stressuð yfir því að vera búin að byggja upp of háar væntingar í gegnum árin þar sem mig hefur dreymt um þessa ferð síðan 2009. Við fengum kannski aðeins fleiri rigningardaga en við kærðum okkur um en ekkert alvarlegra en það.“

Ljósmynd/Aðsend

Var maturinn góður?

„Maturinn fannst mér rosalega góður, ég fékk ferskasta og besta túnfisk sem ég hef á ævinni smakkað og allt sjávarfang var yfir höfuð sérlega ferskt og gott. Einn af þjóðarréttunum þeirra er hrár fiskur í kókoshnetumjólk með lime og grænmeti og ég borðaði mikið af því. Ég er almennt ekki mjög hrifin af hráum fisk en hann var æðislegur í Frönsku Pólynesíu. Ávextirnir í landinu voru líka sérlega ferskir og góðir, þarna fékk ég besta ananas sem ég hef smakkað á ævinni. Síðan fengum við líka að upplifa hefðbundið pólýnesíkst kvöld með dansatriðum og hlaðborði með allskonar pólýnesískum mat þar sem kjöt og fiskur var eldaður í neðanjarðar ofni.“ 

Er flókið að komast þangað?

„Það getur verið snúið að fara þangað frá Íslandi, enda er þetta langt í burtu einhverstaðar í miðju Kyrrahafinu. Við byrjuðum á að fljúga til Portland í Bandaríkjunum og þaðan til Los Angeles. Við ákváðum að gista í þrjár nætur í Los Angeles og flugum svo þaðan með beinu flugi til Tahítí sem tók um átta tíma. Þegar við lentum í Tahítí þurftum við að taka ferju til Mo'orea, eftir nokkra æðislega daga þar þurftum við að snúa aftur til Tahítí með ferjunni og flugum þaðan til Rangiroa og síðan flugum við aftur til Tahítí og þaðan til Bora Bora,“ segir Sara-Yvonne og bendir á að þetta geti verið flókið og þau hafi því ákveðið að fá hjálp frá ferðaskrifstofu sem sá um bóka flug, hótel og ferjur. Það tók þau síðan tvær vikur að jafna sig á flugþreytunni. 

Ferðin var algjör draumur.
Ferðin var algjör draumur. Ljósmynd/Aðsend

Margir veigra sér að fara á fjarlægri slóðir en er það þess virði að fara í aðeins flóknara ferðalag?

„Mér finnst það persónulega mun skemmtilegra, ég kýs að fara frekar í lengri ferðalög og á fleiri framandi staði ef ég get. Sem betur fer eru líka margir staðir sem eru ekki svo langt í burtu sem ég vil líka heimsækja svona inn á milli. En ef ferðalagið er langt þá vil ég gefa mér góðan tíma og helst hafa að minnsta kosti þrjár vikur til þess að vera á staðnum og njóta. Ef ég hef val um langt og erfitt ferðalag á framandi slóðir eða einfalda og þægilega strandarferð myndi ég sjálf alltaf velja fyrri kostinn, það hefur alltaf verið þess virði á mínum ferðalögum.“

Hjónin gistu í litlum kofum.
Hjónin gistu í litlum kofum. Ljósmynd/Aðsend

Ertu búin að ákveða hvert þú ætlar næst?

„Mér fannst æðislegt að kafa í þessari ferð og er draumurinn að halda því áfram. Ofarlega á listanum hjá mér eru til dæmis Raja Ampat í Indónesíu, Socorro-eyja í Mexíkó, Galapagos-eyjar, Filippseyjar, Tonga, Bonaire, Hawaii og Perú. Einnig langar okkur að fara til Noregs í ferð þar sem hægt er að synda með háhyrningum. Við hjónin elskum að ferðast og erum alltaf með augun opin fyrir nýjum möguleikum en okkur langar báðum að sjá og upplifa eins mikið af heiminum og við höfum tök á. Næst liggur leiðin til Austurríkis í vor og er ég líka að skoða áfangastaði á Ítalíu fyrir frí með manninum mínum.“

Sara-Yvonne er byrjuð að leggja drög að næstu ferðum.
Sara-Yvonne er byrjuð að leggja drög að næstu ferðum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert