Fannst æðislegt að búa í London

Hildur Sif Hauksdóttir bjó í tvö ár í London.
Hildur Sif Hauksdóttir bjó í tvö ár í London. Ljósmynd/Aðsend

Hildur Sif Hauksdóttir flutti nýverið heim til Íslands eftir tveggja ára dvöl í London. Í London starfaði hún sem deildarstjóri viðskiptatengsla hjá fjártæknifyrirtæki. Hún getur vel ímyndað sér að flytja aftur erlendis seinna. 

„Ég ákvað að flytja heim eftir að hafa verið að starfandi og búsett í London í tvö ár. Mér fannst æðislegt að búa í London en var samt meira en tilbúin að flytja aftur heim til Íslands eftir að hafa öðlast dýrmæta reynslu á alþjóðlegum vinnumarkaði og tilbúin að takast á við ný spennandi tækifæri á Íslandi,“ segir Hildur um breytingarnar í lífi sínu. 

Hvað fannst þér best við að búa í London?

„Það er líklega hvað borgin er frjáls, í London er að finna fólk allstaðar frá úr heiminum og allir frjálsir að vera eins og þeir vilja. Frábært tækifæri til að kynnast nýju fólki, víkka tengslanetið og takast á við áskoranir sem fylgja því að búa í stórborg. Það er einnig alltaf eitthvað um að vera og erfitt að láta sér leiðast. Mér fannst ekkert skemmtilegra en að nýta helgarnar í að labba um borgina í mínum uppáhalds hverfum, prufa nýja veitingastaði, kaffihús og auðvitað kíkja í einhverjar búðir. Ég var mjög dugleg að fá heimsóknir frá vinum og fjölskyldu og naut ég mín sérstaklega vel að skoða borgina með þeim.“

Hildur Sif naut þess að ganga um borgina.
Hildur Sif naut þess að ganga um borgina. Ljósmynd/Aðsend

Eru einhverjir ókostir við borgina?

„Það er gríðarlegur hraði í London og ekki mikið um rólegheit. Til lengra tíma getur það verið smá yfirþyrmandi. Svo er auðvitað erfitt til að vera frá fjölskyldu og vinum en svo saknaði ég sérstaklega Íslands yfir sumartímann. En ég vissi að ég væri einungis í London tímabundið og reyndi að nýta tímann vel sem ég átti í borginni sem var vissulega æðislegur.“

Finnst þér spennandi að búa á Íslandi í framtíðinni?

„Já mér þykir spennandi að búa á Íslandi og þá sérstaklega þegar ég verð eldri, en ég er samt viss um að eftir einhvern tíma mun ég aftur fá ævintýraþrá og jafnvel skoða að flytja aftur erlendis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert