Samkynhneigðir og hafa lent í ýmsu á ferðalögum

Fjölskyldan saman á ferðalagi.
Fjölskyldan saman á ferðalagi. Skjáskot/Instagram

Jonathan Bailey heldur úti vinsælu ferðabloggi, 2 dads with baggage, þar sem hann gefur innsýn í heim samkynhneigðs pars á ferðalagi með börn. Þeir hafa lent í ýmsu.

„Við ólumst báðir upp í fjölskyldum sem voru ekki að ferðast mikið. Við þráðum þess vegna að ferðast. Við ferðuðumst mikið saman áður en við eignuðumst börn og það breytti lífi okkar. Ferðalög víkka huga manns og kynna manni fyrir mismunandi lifnaðarháttum og nýjum hugmyndum,“ segir Bailey í viðtali við Travel+Leisure.

„Eftir að hafa verið saman í nokkur ár fannst okkur tími til kominn að eignast börn og fengum lögfræðing til liðs við okkur sem hjálpaði okkur að finna konu sem var ólétt. Á þeim tíma var mamma mín dauðvona af krabbameini og við vildum búa til fjölskyldu. Við völdum að fara í opna ættleiðingu því við erum þeirrar skoðunar að það séu til svo mörg börn sem þurfa gott heimili og mikla ást. Mamma mín lést og tveimur vikum síðar fæddist Sophia. Ava kom svo tveimur árum síðar.“

Barnið svaf í skúffu

„Fyrsta ferðin með Sophiu var til Havaí. Þá var hún átta mánaða gömul. Við vorum enn að gefa henni pela og þurftum að taka með okkur formúlu til að endast alla ferðina. Þetta var því töluvert umstang. Þegar við ferðuðumst í fyrsta sinn með Övu þá var hún þriggja mánaða og þurfti að sofa í skúffu því hótelið átti ekki barnarúm.“

Sakaðir um barnastuld

„Þegar Sophia var eins árs þá fórum við fjölskyldan til Cabo. Leigðum stórt hús og áttum góða tíma. Ættleiðingin var ekki formlega gengin í gegn en við vorum samt með alla tilskilda pappíra til að ferðast með barnið. Auk fæðingarvottorðs sem sýndi að við værum foreldrar hennar. Í flugvélinni á leiðinni heim lentum við hins vegar í því að alríkislögreglan kom vopnuð um borð og fjarlægðu okkur og annað samkynhneigt par og þeirra barn úr flugvélinni. Flugvélin fór án okkar og við sökuð um að smygla börnum úr landinu. 

Þetta var fyrir 22 árum og þá voru ekki margar fjölskyldur eins og við. Fólk vissi hreinlega ekki hvernig það ætti að bregðast við. Dætur okkar eru ættaðar frá Mexíkó og við vorum tveir hvítir karlar með mexíkóskt barn í fanginu. Fólk dró rangar ályktanir. Þetta var mjög ógnvekjandi því ég var ekki viss um hvort þeir myndu taka barnið af okkur. Maður er í útlöndum og þeir taka alla pappíra af manni. Spænskan mín er ekki góð og það tók tíma að laga málið. Blessunarlega sáu yfirvöld að sér.“

Erfitt að vera í Tyrklandi á Ramadan

„Oft var skrautlegt á ferðlögum sem samkynhneigðir karlar með börn. Oft var horft á okkur. Svo fengum við oft athugasemdir eins og „Æ, en frábært að sjá feður leyfa mömmunum að fá smá hvíld.“ eða spurningar eins og „Hvar er mamman?“ 

„Við þurftum að gefa þessu enn meiri gaum þegar við ferðuðumst til útlanda. Ég þarf að leggja mikla vinnu í að kanna hvort viðkomandi lönd séu vingjarnleg í garð samkynhneigðra. Við fórum til dæmis til Írlands sem er kaþólskt land. Allt benti til þess að Írar væru vingjarnlegir og það stóðst.“

„Mér leið hins vegar verst þegar við fórum til Tyrklands. Samkynhneigðu vinir okkar sögðu að við þyrftum að fara þangað og að það væri æðislegt. Þannig að við fórum þegar stelpurnar voru 10 og 12 ára. Við áttuðum okkur ekki á því að það var á tíma Ramadan og völdum hótel í gamla bænum. Við vorum því að upplifa trúarhátíð í hefðbundnasta, íhaldsamasta svæði borgarinnar. Allir litu okkur hornauga.“

Heimurinn að batna

„Sem betur fer er heimurinn stöðugt að breytast og batna. Það tók okkur langan tíma að þora að fara aftur til Mexíkó eftir að við vorum handteknir en höfum aldrei lent aftur í neinu veseni. Fólk er orðið sífellt vanara að sjá samkynhneigð pör með börn.“

Það er alltaf mikil gleði hjá fjölskyldunni sem er dugleg …
Það er alltaf mikil gleði hjá fjölskyldunni sem er dugleg að ferðast. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka