Hefur heimsótt 30 lönd ein síns liðs

Lydia Swinscoe elskar að ferðast ein um heiminn.
Lydia Swinscoe elskar að ferðast ein um heiminn. Skjáskot/Instagram

Lydia Swinscoe elskar að ferðast ein um heiminn og hefur heimsótt yfir 30 lönd eins síns liðs. Hér gefur hún lesendum innsýn inn í ferðalög sín og þau lönd sem eru hvað skemmtilegust að heimsækja.

„Ég hef alltaf verið aðdáandi þess að ferðast ein um heiminn og það er margt sem bendir til þess að konur séu í auknum mæli að velja það að ferðast einar,“ segir Lydia Swinscoe í viðtali við The Times.

„Á síðustu 20 árum hef ég farið til meira en 60 landa og hef verið ein á ferð í um helmingi tilfella. Ferðalögin gefa mér tækifæri að losa mig úr viðjum vanans. Ég er ekki sama manneskjan. Ég er mikið á spjalli við nýtt fólk og gef mér tíma til þess að skoða mig um í mun hægari takti en venjulega. Eitthvað sem ég geri ekki í mínu heimalandi.“

Góðmennska ókunnugra stendur upp úr

„Mín eftirminnilegustu ferðaminningar hefðu ekki orðið til ef ég hefði verið á ferðalagi með einhverjum. Mér hefur til dæmis verið boðið heim í mat til fjölskyldu í Kólumbíu og svo villst inn í athöfn seiðmanns í smáþorpi í Kosta Ríka. Verstu minningarnar eru frá því þegar ég var áreitt á Indlandi, Síle og Kúbu. En ég læt það ekkert á mig fá. Það er svo mikill kærleikur og fegurð í heiminum og góðmennska ókunnugra snertir mig alltaf djúpt.“

„Ég elska að ferðast ein og uppáhaldsferðalögin velta á heimamönnum og því hversu opnir og vingjarnlegir þeir eru. Þá skiptir einnig máli hvort auðvelt sé að fá hagstæða gistingu þar og að almenningssamgöngur séu góðar.“

Kosta Ríka

„Kosta Ríka reyndist vera eitt afslappaðasta ferðalagið mitt. Ég upplifði mig örugga allan tímann og náttúrufegurðin var ólýsanleg. Ég hjólaði meðfram strandlengjunni og heimsótti þjóðgarðana sem liggja að landamærum Panama. Þá fór ég í göngur í regnskógunum og slakaði á á ströndinni. Ég var aldrei einmana því ég var stöðugt að hitta heimamenn sem spjölluðu mikið við mig. Ég var reyndar hrædd um að fá aldrei stund út af fyrir mig.“

Lestarferð um Spán

„Spánn er eitt af mínum uppáhaldslöndum. Lestarkerfið þar er mjög gott og það er því auðvelt og tiltölulega hagstætt að ferðast þar um. Þá er mikið af hostelum auk þess sem mikið úrval er af Airbnb. Allir heimamenn vilja ólm hjálpa manni og veita manni ráð varðandi hitt og þetta. Þegar þeir frétta að ég er að ferðast ein þá vilja þeir fá að heyra af mér öðru hvoru til að tryggja að allt gangi vel. Þetta hef ég aldrei fyrr upplifað í Evrópu.

„Allir tapasréttirnir standa líka fyrir sínu. Það er hægt að smakka úrval smárétta fyrir lítinn pening. Þannig er dögunum best varið.“

Fólkið í Kólumbíu var vinalegt og frábært.
Fólkið í Kólumbíu var vinalegt og frábært. Skjáskot/Instagram

Kólumbía

„Þegar ég sagði vinum mínum að ég ætlaði ein til Kólumbíu þá hélt fólk að ég hefði misst vitið. Landið er þekkt fyrir fíkniefnaframleiðslu, stríðsátök og margt í þeim dúr. Nú eru þó breyttir tímar, Kólumbíufólk vill fjarlægja sig ímyndinni af Pablo Escobar og sýna hvað landið þeirra er fallegt og fólkið gott.“ 

„Dagarnir mínir þar voru dásamlegir. Skemmtilegast var að heimsækja Jardin, Medellin, Cartagena, Bogota og Barranquilla. Mér fannst ég alltaf örugg, sérstaklega í sveitinni þar sem bændur og börn vildu alltaf spjalla við mig.“

Hér er hún stödd í Mexíkó.
Hér er hún stödd í Mexíkó. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert