Þögn sló á hljómgarðinn

Chris Cornell var aðeins 52 ára gamall þegar hann lést.
Chris Cornell var aðeins 52 ára gamall þegar hann lést. Ljósmynd/Facebook-síða Chris Cornell

Einn af risum rokksins er fallinn frá. Tónlistarmaðurinn Chris Cornell lést í gær aðeins 52 ára að aldri. Hann fór fyrir Seattle-sveitinni Soundgarden, sem er ein af helstu sveitum gruggsenunnar svokölluðu ásamt Nirvana, Pearl Jam og Alice in Chains, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Soundgarden, sem hefur verið á tónleikaferðalagi um Bandaríkin, hélt tónleika í Fox Theatre í Detroit í gærkvöldi. Cornell fannst meðvitundarlaus inni á baðherbergi að tónleikunum loknum og var skömmu síðar úrskurðaður látinn. Dánarorsök liggur ekki fyrir að svo stöddu, en fram kemur á vef BBC að verið sé að rannsaka hvort hann hafi framið sjálfsvíg.

Hér að neðan má sjá Twitter-færslu sem Fox Theatre í Detroit birti í gær frá tónleikunum.

Óhætt er að segja að Cornell hafi verið einn af bestu rokksöngvurum sem hafa stigið fram á sjónarsviðið, en hann var þekktur fyrir blúsaða og kraftmikla söngrödd sem þræddi sig upp á efstu hæðir rokkstigans.

Í umfjöllun BBC segir að Cornell, sem fæddist 20. júlí 1964, hafi verið einfari á unglingsárum sem glímdi við víðáttufælni og kvíða, eða þar til hann fann fjöl sína í rokkinu. Hann stofnaði Soundgarden árið 1984 með gítarleikaranum Kim Thayil og bassaleikaranum Hiro Yamamoto.

Cornell sést hér ásamt Thayil á Soundgarden-tónleikum í Jacksonville í lok apríl.

Jacksonville last night

A post shared by soundgarden (@soundgarden) on Apr 30, 2017 at 11:58am PDT

Soundgarden vakti mikla athygli á níunda áratugnum fyrir kraftmikið rokk en sló í gegn á heimsvísu á þeim tíunda. Margir hafa líkt sveitinni við rokkrisa á borð við Black Sabbath og Led Zeppelin. Soundgarden gerði upphaflega samning við óháðu plötuútgáfuna Sub Pop, en síðar varð Soundgarden fyrsta gruggrokksveitin sem gerði samning við stórt útgáfufyrirtæki, A&M Records árið 1988. 



Óhætt er að segja að Soundgarden hafi slegið í gegn áheimsvísu árið 1994 þegar breiðskífan Superunknown kom út. Þar er að finna stærsta smell sveitarinnar, Black Hole Sun, en á Spotify má finna rúmlega 50 ábreiður af laginu. Listamenn allt frá Anastaciu til Paul Anka hafa spreytt sig á laginu.

Texti lagsins er mjög draumkenndur og Cornell lét hafa eftir sér að hann hefði einfaldlega látið tónlistina soga sinn inn. „Og ég málaði mynd með textanum.“ Það hafi ekki verið nein stórkostleg hugmyndafræði á bak við textann.

Eins og oft vill verða hjá ástríðufullum listamönnum, leiddu innbyrðis deilur í kjölfar heimsfrægðar á tíunda áratugnum til þess að liðsmenn sveitarinnar settu hljóðfærin á hilluna árið 1997. Hljómsveitin sagði þó ekki lok, lok og læs, því hún kom síðan aftur saman árið 2010 og hefur verið starfandi síðan.

Cornell naut einnig vinsælda sem sólólistamaður en eftir að söngvarinn Zack de la Rocha sagði skilið við hljómsveitina Rage Against the Machine gekk Cornell til liðs við sveitina árið 2001. Úr varð Audioslave sem gaf út þrjár breiðskífur, en sú síðasta kom út árið 2006. Audioslave er m.a. þekkt fyrir að vera fyrsta bandaríska rokkhljómsveitin sem hélt útitónleika á Kúbu.

Árið 2006 sendi Cornell frá sér lagið You Know My Name sem var titillag Bond-myndarinnar Casino Royale, þar sem breski leikarinn Daneil Craig þreytti frumraun sína sem njósnari hennar hátignar. Cornell var ávallt iðinn við kolann, en hann samdi einnig lög fyrir aðra tónlistarmenn, m.a. Alice Cooper.

Cornell er jafnframt einn af fjölmörgum Íslandsvinum og hélt hér tónleika í tvígang. Fyrst í Laugardalshöll árið 2007 og svo var hann með tónleika í Eldborg í Hörpu í fyrra sem þóttu lukkast stórvel.

Chris Cornell í Laugardalshöll árið 2007.
Chris Cornell í Laugardalshöll árið 2007. mbl.is/Eggert

Meðal þess sem hefur verið haft eftir Cornell, er að honum hafi þótt mjög leiðinlegt hvernig gruggsenan þróaðist og skildi eftir merkilegar hljómsveitir í Seattle, þá sérstaklega sveitir sem voru mikið í tilraunamennsku. Hljómsveitir sem að mati útgáfufyrirtækja pössuðu ekki inn í þann heim sem gruggið átti að selja. 

„Þetta er eins og einhver hafi komið til borgarinnar með jarðýtur og vatnsdælur og jafnað þitt eigið fullkomna fjall við jörðu, grafið það upp og hent öllu sem þeir vildu ekki og leyft restinni að rotna,“ sagði Cornell í viðtali við bandaríska tónlistartímaritið Rolling Stone árið 1994. „Þetta er svona slæmt.“

Cornell sést hér ásamt fjölskyldu sinni í apríl.
Cornell sést hér ásamt fjölskyldu sinni í apríl. AFP

Cornell bætist nú í hóp annarra listamanna frá Seattle, eða tengjast grukkrokksenunni, sem hafa fallið frá allt of snemma. Í þessum hópi eru Kurt Cobain úr Nirvana, Layne Staley, söngvari Alice in Chains, og Scott Weiland, söngvari Stone Temple Pilots. 

Chris Cornell sést hér á tónleikum sem hann kom fram …
Chris Cornell sést hér á tónleikum sem hann kom fram á í Los Angeles í janúar með sveitinni Prophets of Rage til að mótmæla kjöri Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. AFP

Eins og áður hefur verið greint frá, liggur dánarorsök ekki fyrir. Hann var hins vegar á tónleikaferð um Bandaríkin með Soundgarden og lést eftir tónleika hljómsveitarinnar sem fóru fram í borginni Detroit í gær. Hann lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn.

Aðrir tónlistarmenn hafa minnst Cornells, m.a. rokkstjörnurnar Jimmy Page úr Led Zeppelin og Elton John.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson