Stjörnur deyja ekki í Liverpool

Film Stars Don't Die in Liverpool
Film Stars Don't Die in Liverpool Stikla úr myndinni.

Hún var óskarsverðlaunahafi og kona sem menn voru reiðubúnir að fórna öllu fyrir. Meðal mótleikara hennar voru þeir James Stewart, Robert Mitchum og Frank Sinatra. Hann var breskur sviðsleikari og 29 árum yngri en hún.

Ástarsaga Gloriu Grahame og Peters Turners er á leiðinni í almennar sýningar en kvikmyndin Film Stars Don't Die in Liverpool verður frumsýnd á Bretlandi á föstudag og í Bandaríkjunum 29. desember. 

Annette Bening og Jamie Bell fara með aðalhlutverkin í Film …
Annette Bening og Jamie Bell fara með aðalhlutverkin í Film Stars Don?t Die. AFP

Gloria Grahame hafði verið gift fjórum sinnum áður en hún kynntist Peter Turner og hefði engum dottið í hug að hún myndi falla fyrir honum. Hún var fallandi hollywoodstjarna en hann breskur leikari á unglingsaldri. En raunin varð önnur og í Stars Don't Die in Liverpool er sögð saga þeirra, ástarsaga sem lauk með dauða hennar árið 1981. Hún var aðeins 57 ára þegar hún lést. Á þeim tíma var hann 29 ára.

Annette Bening og Jamie Bell fara með hlutverk elskendanna í myndinni en Bening er 59 ára gömul og Bell 31 árs. Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla um myndina hafa gagnrýnendur lofað mjög leik beggja í myndinni. 

Bening segir í viðtali við AFP að hún hafi ekki haft neinar áhyggjur af aldursmun þeirra Bells enda bæði á svipuðum aldri og persónurnar voru. Bell skaust upp á stjörnuhimininn þegar hann var 14 ára en hann lék aðalhlutverkið í kvikmyndinni Billy Elliot frá árinu 2000.

„Ég hef allt mitt líf leikið á móti körlum sem eru eldri en ég,“ segir Bening. „Mjög sjaldan hafa þeir verið á sama aldri og ég,“ bætir hún við og segir Bell góðan mann og um leið fagmann.  

Bening hefur verið gift leikaranum Warren Beatty í aldarfjórðung en hann er mun eldri en hún eða áttræður að aldri. Bening er ánægð með leikstjórn Pauls McGuigans, handrit Matts Greenhalghs og störf margra annarra við gerð myndarinnar.

Film Stars Don't Die in Liverpool.
Film Stars Don't Die in Liverpool.

Ber ótakmarkaða virðingu fyrir Bening

„Það voru margir frábærir karlar sem unnu við gerð þessarar myndar og ég vil koma því á framfæri því karlar fá á sig mikla gagnrýni þessa dagana,“ segir Bening í viðtali við AFP.

Bell segist bera ótakmarkaða virðingu fyrir Bening sem leikkonu. „Þú vilt gera enn betur þegar þú vinnur með einhverjum sem þú veist að er í annarri deild,“ segir hann en Bening hefur fjórum sinnum verið tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Myndirnar eru The Grifters frá árinu 1990, American Beauty frá 1999, Being Julia árið 2004 og The Kids Are All Right frá árinu 2010.

Gloria Grahame, sem fæddist árið 1923, lék í fjölmörgum kvikmyndum á ferlinum, þar á meðal It's A Wonderful Life árið 1946. Hún fékk Óskarsverðlaun fyrir leik í aukahlutverki fyrir kvikmyndina The Bad and the Beautiful árið 1952. 

Hjónin Annette Bening og Warren Beatty mættu á frumsýningu Film …
Hjónin Annette Bening og Warren Beatty mættu á frumsýningu Film Stars Don't Die in Liverpool á kvikmyndahátíðinni í Toronto í september. AFP

Hennar þekktustu myndir eru frá miðjum sjötta áratugnum. Myndir eins og In a Lonely Place, Sudden Fear, The Big Heat og Oklahoma!. Undir lokin fór stjarna hennar að dofna, einkum fyrir þá sök að hún tók að sér leik í lélegum myndum og ekki bætti úr skák að það þótti afar erfitt að vinna með henni og skuggar einkalífsins hrönnuðust upp. 

Eftir að hún kynntist Turner í London dvaldi hún langdvölum á Bretlandi. Kvikmyndin Film Stars Don't Die in Liverpool byggist á æviminningum Turners sem bera sama nafn. Þar er fjallað um daga víns og rósa í London og Bandaríkjunum en einnig síðustu vikurnar á heimili hans í Liverpool þegar hún var langt leidd af veikindum. Hún dó ekki í Liverpool líkt og titill myndarinnar ber merki um því 5. október 1981 sneri Grahame til Bandaríkjanna þar sem hún var lögð inn á St. Vincent's-sjúkrahúsið í New York þann sama dag. Nokkrum klukkustundum síðar var hún látin. Banamein hennar var krabbamein.

Ekki mörg önnur viðlíka ástarævintýri

„Þetta var stórkostlegt ástarævintýri og ég hef ekki leikið í mörgum slíkum. Þau eru í raun heldur ekki svo mörg í gangi. Það sem mér þykir best varðandi þetta ástarævintýri er hvað það er ekta,“ segir Bell. 

Hann segir að á þeim tíma hafi fordómarnir verið minni en núna á tímum netsins. „Við vissum ekki allt um alla. Þegar við kynntumst einhverjum þá kynntumst við einfaldlega viðkomandi og upplifðum þá eins og þeir voru í raun og veru,“ segir hann.

Heltekin af útliti sínu

Á fimmta áratugnum varð Gloria Grahame heltekin af útliti sínu. Sérstaklega hafði hún áhyggjur af því hversu þunn efri vör hennar var. Til að draga úr þessu ákvað Grahame að troða bómullarhnoðrum á milli varar og tanna til þess að vera kynþokkafyllri enda ekki sömu fegrunaraðgerðir í boði á þessum tíma og í dag. Eitthvað fór þetta fyrir brjóstið á sumum mótleikurum hennar sem kvörtuðu sáran yfir því að munnur þeirra fylltist af bómull þegar þeir kysstu hana.

Kate Mara og Jamie Bell.
Kate Mara og Jamie Bell. AFP

Um svipað leyti fór hún að leita á náðir fegrunarlækna og að sögn ættingja hennar hafði þetta slæm áhrif á heilsu hennar þar sem taugar skemmdust þannig að hún var tilfinningalaus í efri vörinni. Grahame var alltaf óánægð með útlit sitt, að sögn ættingja, og sá ekki þá sömu fegurð í sjálfri sér og aðrir sáu. 

Giftist stjúpsyninum

Grahame var gift fjórum sinnum og átti fjögur börn. Fyrsti eiginmaður hennar var leikarinn Stanley Clements. Þau voru gift í þrjú ár, 1945-1948. Daginn eftir að skilnaðurinn við Clements gekk í gegn giftist hún leikstjóranum Nicholas Ray. Þau eignuðust soninn Timothy í nóvember 1948. Eftir að hafa verið sundur og saman í nokkur ár gengu þau frá skilnaði árið 1952.

Þriðji eiginmaður Grahame var rithöfundurinn og framleiðandinn Cy Howard. Þau gengu í hjónaband í ágúst 1954 og eignuðust dóttur, Marianna Paulette, árið 1956. Grahame sótti um skilnað frá Howard í maí 1957 og bar fyrir sig andlegt ofbeldi af hans hálfu. Gengið var frá skilnaði þeirra í nóvember 1957.

Síðasti eiginmaður Grahame var leikarinn Anthony Ray, sonur eiginmanns hennar númer 2, Nicholas Rays, og fyrstu eiginkonu hans, Jean Evans. Samband þeirra hófst þegar hann var 13 ára gamall og Grahame var enn gift föður hans.

Nicholas Gray sótti um skilnað frá henni eftir að hann kom að þeim saman í rúminu. Anthony Ray og Grahame náðu saman á ný árið 1958 og gengu í hjónaband 1960. Þau eignuðust tvö börn saman, Anthony yngra (1963) og James (1965).

Hjónabandið þótti mikið hneyksli

Ekki var greint opinberlega frá hjónabandinu fyrr en árið 1962 er það rataði á síður slúðurblaðanna. Þótti málið mikið hneyksli og hafði afar slæm áhrif á feril hennar. Þegar Cy Howard frétti af hjónabandi hennar og Anthonys Rays fór hann í forræðisdeilu við Grahame og reyndi að fá fullt forræði yfir dóttur þeirra, Marianne. 

Allt þetta hafði slæm áhrif á heilsu Grahame og endaði hún með því að fá taugaáfall. Á þessum tíma var talið að besta lækningin væri raflost og fór Grahame í slíka meðferð árið 1964. En þrátt fyrir allt hneykslið í kringum hjónabandið varð þetta hennar lengsta hjónaband en þau Ray skildu árið 1974.

Annette Bening og Jamie Bell.
Annette Bening og Jamie Bell. AFP

Í mars 1974 var Grahame greind með brjóstakrabbamein. Hún fór í geislameðferð, breytti um mataræði og hætti að drekka og reykja. Hún leitaði jafnframt á náðir hómópata. Innan árs var krabbameinið horfið en árið 1980 greindist hún að nýju. Hún neitaði að viðurkenna veikindin og eins hafnaði hún því að fara í geislameðferð. 

Æxli á stærð við fótbolta

Turner segir í endurminningum sínum að Grahame hafi verið með krabbamein í kviðarholi og að læknir fjölskyldunnar hafi sagt það á stærð við fótbolta. Hvergi er minnst á brjóstakrabbamein í bókinni. 

Þegar börn hennar fengu að vita hversu veik hún væri kröfðust þau þess að hún færi með þeim til Bandaríkjanna gegn vilja Turners og fjölskyldu hans. Svo fór að lokum og eins og áður sagði lést hún á sjúkrahúsi í New York aðeins nokkrum klukkustundum eftir komuna. Enda deyja kvikmyndastjörnur ekki í Liverpool heldur New York.

Peter Turner, sem fæddist árið 1952, er starfandi rithöfundur í London. Hann hefur meðal annars skrifað bækurnar A True Love Story og The Blair Witch Project sem margir kannast væntanlega við.

Guardian

Mirror

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson